Spurt og svarað
Míla 10x - Vettvangur til framtíðar
Hvað er 10x?
10x er nýr vettvangur fjarskipta sem mun standa íslenskum heimilum til boða gegnum fjarskiptafélög þeirra frá og með 1. október. Þar býðst allt að 10 gígabita tenging á sekúndu í báðar áttir. Það er tíföldun þess sem best þekkist í dag sem er gríðarstórt stökk fyrir tengingar íslenskra heimila.
10x notast við nýja tækni (XGS-PON eða á ensku 10 gigabit symmetrical) sem nýtir fyrirliggjandi ljósleiðaralagnir heimila sem tengjast ljósleiðara Mílu.
Hvernig fá heimili 10x?
Uppfæra þarf búnað á báðum endum lagna til heimila. Annars vegar er uppfærsla í tengistöð Mílu og hins vegar hjá heimili. Uppsetningarteymi fjarskiptafélaga uppfæra 10x netbúnað heimila sem styður nýja tækni og býður öflugt þráðlaust samband.
Af hverju 10 gígabitar?
Míla byggir upp vettvang til að mæta eftirspurn íslenskra heimila eftir netupplifun í hæsta gæðaflokki. Uppfærslan er tímabær. Hún byggir á reynslu og alþjóðlegum gögnum um þróun nettenginga, breyttri hegðun og nýrrar tækni sem er að ryðja sér til rúms.
Hvernig gagnast 10x heimilum á Íslandi?
10x er ætlað að tryggja heimilum 10 sinnum betri upplifun – ekki bara með áhrifaríkum niðurstöðum hraðaprófa - heldur einnig með styrkum grunni sem færir tækjum heimilis það sem þau þurfa án þess að hafa áhrif á önnur tæki og notendur.
Fyrir hvern er 10x?
10x býður upp á afkastagetu og möguleika fyrir kröfuharða notendur. 10x er sannarlega stórt stökk og ljóst er að þarfir heimila eru mismunandi. Í fyrstu er einkum horft til ákveðinna hópa svo sem frumkvöðla og brautryðjenda, lífstílsleiðtoga, giggara, rekstraraðila tækniumhverfa og kröfuharðra leikjaspilara. En í raun er 10x fyrir alla þá sem gera kröfu um það besta sem býðst.
Hvað kostar 10x?
Míla starfar eingöngu á heildsölumarkaði. Verð þjónustu til viðskiptavina og val á bitahraða er í höndum fjarskiptafélaganna.
Hvernig get ég fengið 10x fyrir mitt heimili?
Þú getur kannað hvort 10x sé í boði fyrir þitt heimili í leitarvélinni á heimasíðu okkar www.mila.is Ef svo er getur þú óskað eftir tilboði frá fjarskiptafyrirtæki að þínu vali. Ef þjónustan er ekki enn aðgengileg á þínu heimilisfangi, getur þú skráð þig og fengið tilkynningu þegar 10x þjónustan er í boði fyrir þitt heimili.
Verður 10x í boði fyrir öll heimili í landinu?
Í fyrstu verður 10x í boði á höfuðborgarsvæðinu. Þeim svæðum sem býðst 10x mun síðan fjölga jafnt og þétt. Fyrst í nágrenni höfuðborgarsvæðis og síðan víðar um land, þar til öll heimili sem eiga kost á ljósleiðara frá Mílu hafa verið uppfærð í 10x. Hraði uppbyggingar mun ráðast af vinsældum 10x og fjölda viðskiptavina sem kjósa 10x.
Míla mun bjóða upp á 10x vettvanginn á öllu höfuðborgarsvæðinu frá og með 1. október 2023. Fyrsta svæðið sem verður boðið allt að 10 gígabita hraði verður þjónustusvæði Múlastöðvar í Reykjavík. Öðrum svæðum innan höfuðborgarsvæðisins verður fyrst um sinn boðinn 2,5 gígabita hraði sem síðan verður uppfærður í skrefum, með það að markmiði að fyrir 1. apríl 2024 eigi öll heimili höfuðborgarsvæðis sem tengjast ljósleiðara Mílu möguleika á 10x aðgangi og fullum hraða.
Hvað er langt þar til 10x verður í boði fyrir alla?
Það er skýr stefna Mílu að geta boðið viðskiptavinum aðgang að 10x á öllu þjónustusvæði ljósleiðara Mílu. Því fleiri heimili sem koma á 10x því örar verður tæknin byggð upp. Samhliða uppbyggingu 10x mun Míla halda áfram ljósleiðaravæðingu heimila um allt land og 10x fylgir í kjölfarið.
Verður 10x í boði sjálfkrafa fyrir þau heimili sem er verið að ljóstengja?
10x er með skilgreint þjónustusvæði og ef nýtengt heimili er innan þess svæðis þá mun það sjálfkrafa eiga kost á 10x. Hægt er að fletta upp möguleikum og stöðu tenginga á vef Mílu.
hvað með fyrirtæki? Er 10x í boði fyrir þau líka?
10x verður fyrst um sinn einungis í boði fyrir heimili en Míla mun fljótlega bjóða 10x til fyrirtækja.
Af hverju er bara í boði 2,5 gígabita hraði í fyrstu þegar það er talað um 10x?
Frá og með 1. október býðst öllum heimilum á höfuðborgarsvæðinu sem tengd eru við ljósleiðara Mílu að fá 2,5 gígabita hraða. Míla mun uppfæra tæknikerfi og netbúnað á öllu höfuðborgarsvæðinu til þess að allir eigi kost á að tengjast 10x og fá fullan hraða, allt að 10 gígabita fyrir 1. apríl á næsta ári. Míla mun tilkynna jafnóðum og uppfærslur hafa átt sér stað á nýjum svæðum.
Þarf að skipta um netbeini (e.router) fyrir 10x?
Já. Til þess að nýta að fullu þennan mikla hraða þarf í flestum tilvikum að skipta um netbúnað. Fjarskiptafyrirtæki eiga þess kost með því að virkja 10x að bjóða upp á 2,5 gígabita, 5 gígabita eða allt að 10 gígabita hraða til heimila. Fjarskiptafyrirtækin munu samhliða bjóða upp á netbúnað sem styður þann hraða sem þau kjósa að bjóða sínum viðskiptavinum.
Hvernig veit ég hvort netbúnaðurinn styður 10x?
Ef vafi leikur á hraða sem núverandi netbúnaður styður bendum við viðskiptavinum fjarskiptafélaga á að hafa samband við sitt fyrirtæki til þess að kanna hvort skipta þurfi um netbúnað. Almennt styður venjulegur netbúnaður fyrir 1 gígabita tengingu ekki hraða umfram það.
Hvar get ég keypt 10x netbúnað?
Viðskiptavinir fjarskiptafélaga geta nálgast netbúnað hjá því fjarskiptafélagi sem viðkomandi er í viðskiptum við, hjá söluaðilum tölvu og tæknibúnaðar og gegnum netverslanir, innlendar sem erlendar. Mikilvægt er að vanda val á búnaði vel til þess að tryggja það að upplifun af 10x verði í samræmi við væntingar. Fjarskiptafyrirtæki veita viðskiptavinum sínum ráðgjöf við val á búnaði.
Get ég notað eigin netbúnað?
Ef það fjarskiptafyrirtæki sem þú ert í viðskiptum við heimilar notkun á eigin netbúnaði er ekkert því til fyrirstöðu að nota eigin búnað. Sá búnaður þarf að styðja þann hraða sem 10x býður til þess að þú fáir rétta 10x upplifun. Mikilvægt er að vanda valið á búnaði til þess að tryggja að upplifun af 10x verði í samræmi við væntingar. Fjarskiptafyrirtækin veita flest viðskiptavinum sínum ráðgjöf við val á búnaði.
Er netbeinir fyrir 10x dýrari en þeir eldri?
Eins og með flestar nýjungar kosta þær yfirleitt meira í upphafi. Netbúnaður sem styður hærri hraða en 1 gígabita er almennt dýrari en verð er mismunandi eftir útfærslu, gæðum og virkni sem er til staðar.
Hvernig veit ég hvaða hraða ég þarf og er 1 gígabiti kannski bara nóg?
Þörf á nethraða ræðst af fjölmörgum þáttum. Einn slíkur er hversu margir notendur eru á heimilinu, hversu mörg tæki eru nettengd og hvaða hlutverki þau þjóna. Annar þáttur er notkun heimilisins. Er t.d. unnið mikið í heimavinnu við störf sem krefjast hraða eins og t.d. margmiðlunar og myndvinnslu, vinnu við stór gagnasöfn, verkfræðiteikningar og umfangsmikinn hugbúnað. Þurfa leikjatölvur á heimili reglulega að hlaða niður og uppfæra hugbúnað og leiki. Að lokum má nefna að ef heimilið er þegar með stærstu tengingu sem völ er á og mikla notkun en er samt ekki að fá upplifun í samræmi við það, þá er rík ástæða til þess að skoða hvort 10x geti verið lausnin.
Hvaða önnur lönd bjóða hraða yfir 1 gígabita?
Nokkur fjarskiptafyrirtæki víða um heim bjóða í dag upp á hraða yfir 1 gígabita eða eru að undirbúa að bjóða upp á slíkan valkost. Mjög mismunandi er eftir löndum og aðilum hvaða hraði er í boði. Fremstir meðal jafningja eru fjarskiptafyrirtæki í Sviss, Swisscom, Sunrise UPS og Salt, sem öll bjóða upp á 10 gígabita hraða. Þeim fjarskiptafyrirtækjum sem bjóða upp á hraða yfir 1 gígabita mun fjölga mjög ört á næstunni.
Hvað er GPON og XGS-PON?
GPON og XGS-PON eru tvær kynslóðir af PON tækni (e. Packet Optical Network) sem er notuð er til að veita netþjónustu um ljósleiðarakerfi Mílu. G - ið í GPON stendur fyrir gigabit og XGS stendur fyrir 10 gigabit symmetrical (samhverft). 10x vettvangurinn byggir á XGS tækni sem veitir möguleika á allt að 10 gígabita samhverfu sambandi.
Hver er munurinn á PON og P2P?
10x vettvangur Mílu byggir á svokallaðri PON tækni (e. Packet Optical Network). Önnur ljóðleiðarafyrirtæki á Íslandi bjóða P2P tækni (e. Point to Point). Bæði PON og P2P veita heimilum og fyrirtækjum netþjónustu um ljósleiðarakerfi. Munurinn liggur í högun ljósleiðara. Með P2P tækni er hvert heimili tengt miðlægum búnaði með sérstökum ljósleiðaraþræði alla leið. Með PON tækni sameinast nokkur heimili um hvern ljósleiðaraþráð. Báðir tengimátar skila sambærilegum hraða og upplifun til notenda.
Rannsóknir sýna* að PON kerfi eru mun hagkvæmari og umhverfisvænni í rekstri með minni notkun rafmagns. Þá krefst PON umtalsvert minni fjárfestinga í innviðum, þurfa minna viðhald og bilanagreiningar og viðgerðir taka styttri tíma. Af þeim sökum hefur Míla kosið að byggja sína þjónustu á PON tækninni frekar en P2P. Langstærsti hluti ljósleiðarakerfa heimsins eru PON kerfi.
*P2P vs GPON - Fiber access technologies study - Nokia 2021
Er einhver þörf fyrir svona mikinn hraða? er þetta ekki bara einhver framtíðarþörf?
Umtalsverður hluti íslenskra heimila hefur þegar þörf fyrir þennan hraða og fer ört fjölgandi. Míla er að svara eftirspurn sem er þegar til staðar og byggir upp tæknivettvang fyrir framtíðareftirspurn. 10x stendur ekki bara fyrir hraða heldur einnig gæði og heildarupplifun. Nútímaheimili gera kröfu um öfluga nettengingu, hraðvirkt þráðlaust net og hnökralausa 10x upplifun.