Upplýsingar til húseigenda - frágangur ljósleiðaralagna

Mikilvægt er að ganga rétt frá ljósleiðaralögnum strax í upphafi. Með því er tryggt að húseigandi fær bestu gæði á sína tengingu og auðvelt er að skipta um þjónustuaðila sé þess óskað.

Reglur um frágang innanhússlagna ljósleiðaralagna 

Innanhússlagnir eru tengingar frá inntaki að búnaði notanda og eru þær lagnir á ábyrgð húseiganda samkvæmt Póst- og fjarskiptastofnun (PFS). Reglur um innanhússlagnir snúa að frágangi fjarskiptalagna í inntaki.

Ef ekki er rétt gengið frá innanhússlögn strax í upphafi, getur verið erfitt og kostnaðarsamt fyrir húseiganda að skipta um fjarskiptafyrirtæki og þá getur óvandaður frágangur haft áhrif á gæði þjónustunnar. Þar sem húseigendur bera ábyrgð á lögninni innanhúss samkvæmt fjarskiptalögum, þá ber húseigandi einnig kostnaðinn við lagfæringar en ekki það fjarskiptafyrirtæki sem lagði lögnina. Það er því mikilvægt að húseigendur séu meðvitaðir um rétt vinnubrögð.

Míla hefur fylgt reglum PFS um frágang innanhússlagna. Starfsmenn og samstarfsaðilar Mílu sem vinna við innanhússlagnir fyrir hönd fyrirtækisins sitja ítarleg námskeið í frágangi á ljósleiðara sem byggja á reglum PFS og ÍST 151 staðlinum. Myndin hér til hliðar sýnir fyrirmyndar frágang innanhússlagna.

Leiðbeiningar um réttan frágang innanhússlagna samkvæmt ÍST 151 staðlinum

Ávallt skal setja upp tengilista í fjarskiptainntaki, frá tengilista er einn þráður upp í hverja íbúð. Heimilt er að notast við bræðisuðuaðferð, en þá skal alltaf tengja lausan aukaþráð á tengilista. 

Tengilisti í fjarskiptainntaki er listi sem endatengi innanhússlagnar eru fest í. Innanhússlögnin tengist inntakskassanum með endatengjum og er því auðvelt að færa lögnina á milli fjarskiptafyrirtækja sé þess óskað. Tengilisti getur verið hilla eða listi í húskassa.

Réttur frágangur og einfaldleiki

Myndin hér til hliðar sýnir réttan frágang á fjarskiptalögnum. hér er tengilisti með endatengjum sem auðvelt er að breyta. Ef notandi velur að færa sig milli fjarskiptafyrirtækja, er endatengi tekið úr sambandi þess félags sem farið er frá og tengt í kassa þess sem valið er. Svona einfalt er að færa sig á milli fjarskiptafyrirtækja ef farið er eftir reglum PFS og ÍST 151 um frágang.

Óvandaður frágangur

Sé ekki farið eftir reglum um frágang innanhússlagna getur verið mjög erfitt og vandasamt að færa notendur á milli fjarskiptafyrirtækja. Frágangur eins og má sjá á myndinni hér til vinstri eykur mjög hættuna á því að þræðir brotni sem veldur því að notendur missa netsamband.

Bræðisuða

Þegar notuð er svokölluð bræðisuða, þar sem inntaksstrengur er soðinn fastur við innanhússlögn þá getur það verið mikið flækjustig að færa notanda á milli fjarskiptafyrirtækja. Þá þarf að klippa á þráðinn og draga innanhússtreng út úr kassanum og bræðisjóða við streng hins aðilans til að komast í samband. Við þessa aðgerð styttist innanhússlögnin í hvert skipti sem skipt er um fjarskiptafyrirtæki og verður á endanum of stutt og ónothæf til tengingar.