Spurt og svarað

Ljósleiðari Mílu 

Hver er niður- og upphalshraði á ljósleiðara Mílu?

Það er sami hraði í báðar áttir á ljósleiðara. Hraðinn á ljósleiðara Mílu getur náð allt að 10 Gb/s. 

Hvernig get ég séð hvort mitt heimili sé komið með tengingu við ljósleiðara Mílu?

Þú setur heimilisfangið þitt inn í leitarvélina okkar. Þar kemur fram hvaða tengimöguleikar eru í boði fyrir þitt heimili.

Er hægt að vera með öryggiskerfi og neyðarhnappa á ljósleiðaratengingu?

Við bendum öllum þeim sem vilja fá ljósleiðaratengingu og eru með öryggiskerfi og/eða neyðarhnappa að hafa samband við öryggisfyrirtækið sitt og fá ráðgjöf um hvaða lausnir eru í boði til að tryggja að kerfin virki áfram.

Hver er munurinn á ljósleiðara og Ljósneti?

Helsti munurinn á þessum tveimur tengingum er hraðinn. Á Ljósneti er hámarkshraði 100 Mb/s en á Ljósleiðara er hámarkshraði 10 Gb/s. Þá er samband á Ljósleiðara samhverft samband, þ.e. sami hraði í báðar áttir. Aftur á móti er niðurhalshraði á Ljósneti að hámarki 100 Mb/s en upphalshraði er 25 Mb/s.  

Hvernig fer tenging fram?

Hvernig fæ ég tengingu við ljósleiðara Mílu?

Fjarskiptafyrirtækin sjá um að veita þjónustu um ljósleiðara Mílu. Eina sem þú þarft að gera er að hafa samband við fjarskiptafyrirtækið sem þú kaupir þjónustu af og pantar þjónustu um ljósleiðarann. Fjarskiptafyrirtækið hefur samband við Mílu sem kemur samkvæmt þeirra beiðni og klárar tengingar innanhúss. 

Hvað þarf ég að gera til að virkja ljósleiðara Mílu?

Þú hefur samband við fjarskiptafyrirtæki að eigin vali sem sér um að panta tengingu hjá okkur. Við heyrum svo í þér til að finna hentugan tíma til að ganga frá tengingunni og þegar því er lokið er ljósleiðarinn orðinn virkur hjá þér.

Hvers vegna þurfa svo margir að koma að einni tengingu?

Ferli ljósleiðaratengingar er almennt þannig að fyrst er ljósleiðari lagður að heimili og hann tengdur inn í húskassa. þaðan þarf svo að leggja innanhússlagnir að þeim stað þar sem viðskiptavinur er með búnaðinn sinn, s.s. router, myndlykil o.s.frv. 

Eru truflanir á netinu?

Er netið hægt eða eru stundum truflanir á netinu?

Ef vandamál er á netinu skaltu hafa samband við fjarskiptafyrirtækið sem sér um þjónustuna.

Yfirleitt er það ekki undirlagið sem er vandamálið varðandi þráðlausa netið. Til þess að þráðlausa sambandið virki sem best þarf routerinn að vera staðsettur miðlægt í húsinu, þannig að tækin sem tengjast honum nái auðveldlega sambandi við hann. 

Búnaður sem er ætlaður til að framlengja eða magna upp þráðlaust samband getur leyst ýmis vandamál, s.s ef sambandið er veikara í sumum hlutum húss eða íbúðar. Þennan búnað er hægt að kaupa í flestum raftækjaverslunum eða í verslunum fjarskiptafyrirtækjanna. 

Það getur verið ráð að láta mæla gæði tenginga innanhúss ef vandamál eru á netinu. Innanhússlagnir sem eru orðnar lélegar, t.d. í eldri húsum geta valdið hægagangi og truflunum. 

Er sjónvarpið stundum að frjósa?

Myndlyklar og routerar hafa takmarkaðan líftíma. Það getur verið að það sé kominn tími á að skipta út búnaði. Þá getur einnig verið að fara þurfi fram uppfærsla á þessum búnaði. Hafðu samband við þinn þjónustuaðila og fáðu ráðgjöf varðandi búnaðinn hjá þér. 

Það getur verið ráð að láta mæla gæði tenginga innanhúss ef vandamál eru á netinu. Innanhússlagnir sem eru orðnar lélegar, t.d. í eldri húsum geta valdið hægagangi og truflunum. 

Færðu stundum lágar hraðamælingar?

Það er svo margt sem getur haft áhrif á útkomu hraðamælinga. Ef hraðinn er mældur á þráðlausu neti fæst aldrei nema brot af hæsta mögulega hraða nettengingarinnar. 

Þegar verið er í framkvæmdum 

Ég er að fara að grafa í garðinum hjá mér. Er eitthvað sem þarf að passa?

Áður en hafist er handa við að grafa t.d. fyrir palli, eða garðhúsi, þá þarf að afla upplýsinga um mögulegar lagnir í kringum húsið. Til þess þarf að panta teikningar hjá Mílu en það er hægt að gera hér á vefnum og fá sent í tölvupósti, þér að kostnaðarlausu. Þá er hægt að panta svokallaða sóningu, en þá er sónað fyrir strengjum í jörðu og þannig hægt að staðsetja þá nákvæmlega. 

Ég er að byggja. Hvernig sný ég mér með fjarskiptalagnir í nýbyggingu?

Samkvæmt staðlinum ÍST 151:2016. 9.1 grein, Frágangur á fjarskiptalögnum:  Mælt er með að öllum fjarskiptalögnum sé skilað fullfrágengnum með endatenglum í herbergjum og með tengilistum í tengiskápum. Einnig skal verktaki setja upp alla tengiskápa samkvæmt þessum staðli. Tækjabúnaður í tengiskápum er ekki meðtalinn í útboði þar sem reikna má með að íbúar húsnæðisins óski eftir mismunandi fjarskiptakerfum frá mismunandi þjónustuaðilum sem rétt er að eigandinn sjálfur taki ákvörðun um þegar flutt er inn í húsnæðið. Eðlilegt er að reikna bæði með kóaxlögnum og netlögnum (CAT) innan hverrar íbúðar.

Í fjöleignarhúsi skal einnig reikna með að verktaki skili verkinu með fjarskiptalögnum frá húskassa til allra íbúða, bæði kóaxlögnum og netlögnum (CAT og/eða ljósleiðara) sem enda í tengilistum. Auk þess skal verktaki einnig koma öllum tengiskápum fyrir í sameign með tengilistum samkvæmt þessum staðli. Tækjabúnaður í tengiskápum er ekki meðtalinn í útboði þar sem um mismunandi fjarskiptakerfi er að ræða frá mismunandi þjónustuaðilum sem rétt er að eigendur íbúðanna taki ákvörðun um þegar flutt er inn í húsnæðið.

Ég er að flytja. Hvernig færi ég þjónustuna á nýja staðinn?

Eina sem þú þarft að gera er að tilkynna um nýtt heimilisfang til fjarskiptafyrirtækisins þar sem þú ert með þjónustuna og þeir sjá um tilfærsluna. 

Þarf ég að taka ljósleiðaraboxið með mér þegar ég flyt?

Nei þess þarf ekki. Ljósleiðaraboxið tilheyrir fasteigninni sem það hefur verið sett upp í. Ef það er ljósleiðari Mílu í boði á nýja staðnum, en ekkert ljósleiðarabox komið, þá hefurðu samband við fjarskiptafyrirtækið þitt og óskar eftir að það verði sett upp box frá okkur.

Ég er í framkvæmdum innanhúss, er eitthvað sem þarf að passa?

Ef þú ert að taka niður veggi þá þarf að gæta að því hvort það séu einhverjar fjarskiptalagnir í þeim veggjum. við aðra léttari vinnu svo sem að mála þá þarf ekki að passa sig sérstaklega. 

Hvert á að leita? 

Reikningar

Fjarskiptafélögin sjá alfarið um þjónustu til endanotanda. Til að fá upplýsingar um reikninga skal leita til viðkomandi fjarskiptafyrirtækis. Míla sendir enga reikninga til endanotanda.

Ef þú vilt koma ábendingu á framfæri við Mílu varðandi verklag, frágang eða öryggi fjarskiptalagna, sendu okkur ábendingu með því að smella á hnappinn "Hafa samband" hér efst á síðunni. 

Panta tengingu 

Fjarskiptafélögin sjá alfarið um þjónustu til endanotanda. Viljir þú panta tengingu eða fá upplýsingar um stöðu pöntunar, afhendingu eða viðgerðir, skaltu leita til viðkomandi fjarskiptafyrirtækis. 

Ef þú vilt koma ábendingu á framfæri við Mílu varðandi verklag, frágang eða öryggi fjarskiptalagna, sendu okkur ábendingu með því að smella á hnappinn "Hafa samband" hér efst á síðunni.