Stefna Mílu í mannauðs- og jafnréttismálum

Stefna Mílu er að ráða, efla og halda hæfu og traustu starfsfólki.

Tilgangur​​​

Stefna Mílu er að ráða, efla og halda hæfu og traustu starfsfólki. Lögð er sérstök áhersla á að skapa gott vinnuumhverfi með sterkri liðsheild, jöfnum tækifærum til þróunar, hvatningu til að sýna frumkvæði, opnum skoðanaskiptum og góðri miðlun upplýsinga.

Stefnu Mílu er einnig ætlað að tryggja að unnið sé í samræmi við lög nr. 150/2020 og önnur lög um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna. Með skýrri stefnu vill félagið fara að lögum og vinna með markvissum hætti að því að fyllsta jafnréttis sé gætt og að unnið sé í samræmi við lög um jöfn laun kynjanna.

Markmið​​ og framkvæmd

Markmið stefnunnar er að tryggja jöfn tækifæri starfsfólks auk þess að vera leiðarljós um starfshætti sem stuðla að jafnrétti. Með virkri mannauðs- og jafnréttisstefnu skal tryggja að hver starfsmaður sé metinn að verðleikum og stuðlað sé að betri nýtingu á hæfileikum og þekkingu starfsfólks.

Starfsmannaval

Míla er þjónustufyrirtæki sem leggur áherslu á að veita áreiðanlega og örugga þjónustu með framúrskarandi starfsfólki. Ráðningar nýs starfsfólks skulu vera óháðar kyni og skulu ráðningar unnar á faglegan hátt þar sem allir umsækjendur eru metnir á sama hátt og fara í gegnum sama ferlið. Jafnframt skal stefnt að jafnri kynjaskiptingu innan sviða, deilda og í mismunandi störfum innan sviða.

Nefndarstörf

Við skipun í starfsnefndir og hópa skal fagþekking einstaklinga ráða mestu um val í nefndir. Þó skal stefnt að jöfnum hlut kynjanna eins mikið og því verður viðkomið hverju sinni.

Fræðsla og starfsþróun

Markmið Mílu er að vinnuumhverfið stuðli að faglegum vexti starfsfólks innan fyrirtækisins með markvissri þjálfun, lifandi endurgjöf ásamt fjölbreyttum og krefjandi verkefnum. Við leggjum áherslu á að frammistaða og hæfni séu höfð að leiðarljósi við stöðuhækkanir og aðra starfsþróun innan fyrirtækisins. Í samræmi við jafnréttislög skulu konur, karlar og fólk með hlutlausa skráningu kyns í þjóðskrá njóta sömu möguleika til sí- og endurmenntunar sem og til starfsþróunar. Stjórnendur og starfsmenn, óháð kyni, eru hvattir til að afla sér endurmenntunar. Starfsmenn og stjórnendur bera sameiginlega ábyrgð á því að frammistaða sé rædd reglulega.

Laun og kjör

Míla vill bjóða samkeppnishæf laun og tryggja að starfskjör taki mið af hlutverki, ábyrgð og frammistöðu í starfi. Míla fylgir jafnréttislögum og leggur metnað sinn í að greiða sömu laun fyrir sama framlag. Konur, karlar og fólk með hlutlausa skráningu kyns í þjóðskrá eiga að njóta sömu launakjara fyrir sambærileg og jafn verðmæt störf. Munur á launum starfsfólks á aðeins að endurspegla mun á ábyrgð og eðli starfa, menntun og frammistöðu í starfi. Konur, karlar og fólk með hlutlausa skráningu kyns í þjóðskrá skulu jafnframt njóta sömu kjara hvað varðar lífeyris-, orlofs- og veikindarétt og hver önnur starfskjör eða réttindi sem metin verða til fjár. Mannauðsstjóri og stjórnendur skulu einnig skuldbinda sig til að viðhalda stöðugum umbótum, eftirliti og bregðast við óútskýrðum launamun og þeim frávikum sem koma fram við rýni á jafnlaunakerfinu. Stefnt er að því að laun og önnur kjör séu samkeppnishæf við önnur sambærileg störf á markaði.

Vinnuumhverfið

Heilbrigðir starfsmenn skila meiri árangri, og eru ánægðari í starfi og því leggur Míla áherslu á að styðja við heilbrigði og góða líðan starfsfólks. Áhersla er lögð á að starfsfólk geti samræmt vinnu og einkalíf með því að veita möguleika á sveigjanlegum vinnutíma, þar sem því verður komið við og tryggja að vinnuaðstæður séu í takt við þarfir og verkefni starfsfólks. Tekið skal tillit til starfsfólks á meðgöngutíma, foreldra við umönnun ungbarna og erfiðra fjölskylduaðstæðna starfsfólks.

Allt starfsfólk skal njóta sömu virðingar, hafa jafna stöðu innan fyrirtækisins og tryggt skal að einstaklingum sé ekki mismunað á grundvelli kyns, aldurs, þjóðernis, fötlunar, trúarbragða eða kynhneigðar.

Míla tekur skýra afstöðu gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi. Einelti, áreitni, ofbeldi eða fordómar  vegna kyns, þjóðernis, kynþáttar, kynhneigðar, litarháttar, efnahags, trúarbragða, skoðana eða nokkurskonar stöðu einstaklinga verður ekki liðin. Viðbragðsáætlun og boðleiðir vegna slíkra mála skulu vera öllum sýnilegar og aðgengilegar á innri vef fyrirtækisins.

Umfang og ábyrgð​​​​

Stefnan er bindandi fyrir alla stjórnendur og nær til alls starfsfólks Mílu.

Framkvæmdastjóri í samvinnu við Mannauð ber ábyrgð á stefnunni sjálfri og annast framkvæmd hennar, endurskoðun og kynningu á henni.

Endurskoðun​​

Endurskoða skal stefnuna á þriggja ára fresti og oftar ef þörf krefur, til að tryggja að hún samrýmist lögum um jafnrétti og stefnu Mílu á hverju tíma.  Hún er lögð fyrir og staðfest af framkvæmdastjórn og undirrituð af Framkvæmdastjóra Mílu.

Gildistími

Þessi stefna tekur gildi frá og með 13.9.2021 og verður næst endurskoðuð í september 2024.

Útgáfa 2.1

Reykjavík, 9.9.2021

Jón Ríkharð Kristjánsson
Framkvæmdastjóri Mílu