Mannauðs- og mannréttindastefna
Míla vill vera eftirsóknarverður vinnustaður með jákvæðu og hvetjandi vinnuumhverfi, jöfnum tækifærum og hæfu starfsfólki.
Lykilforsenda þess að Míla veitir framúrskarandi fjarskiptaþjónustu um land allt er metnaðarfullt starfsfólk fyrirtækisins sem sýnir framsækni, áreiðanleika og traust í störfum sínum. Mannauðs– og mannréttindastefna Mílu er ætlað að tryggja að mannréttindi séu virt í allri starfsemi fyrirtækisins. Við leggjum áherslu á að skapa vinnuumhverfi með jöfnum tækifærum án titils, kyns, kynvitundar, kynhneigðar, uppruna, þjóðernis, litarhafts, aldurs, fötlunar, trúar eða annarrar stöðu. Hvers kyns mismunun er í andstöðu við stefnu þessa og er óheimil samkvæmt jafnréttislögum nr. 150/2020 og lögum nr. 86/2018 um jafna meðferð á vinnumarkaði.
Með þessari stefnu leggur Míla áherslu á að verða eftirsóknarverður vinnustaður með jákvæðu og hvetjandi vinnuumhverfi, jöfnum tækifærum og hæfu starfsfólki. Til að styðja við stefnuna þá leggjum við áherslu á eftirfarandi:Vinnuumhverfið
Við leggjum áherslu á að starfsfólki líði vel. Við leitumst við að skapa jákvætt, hvetjandi og umbótadrifið vinnuumhverfi. Lögð er áhersla á að skapa heilsusamlegt vinnuumhverfi og slysalausan vinnustað þar sem starfsfólk setur öryggi og heilsu sína ávallt í forgang. Við stuðlum að heilsusamlegu vinnuumhverfi með markvissri öryggis -og heilsuverndarstarfi. Við gerum starfsfólki kleift að samræma vinnu og einkalíf með því að veita möguleika á sveigjanlegum vinnutíma, þar sem því verður komið við og tryggja að vinnuaðstæður séu í takt við þarfir og verkefni starfsfólks. Við sýnum hvort öðru umhyggju og virðingu og umberum ekki einelti, kynferðislega áreitni, kynbundið áreiti og ofbeldi eða fordóma af neinu tagi. Viðbragðsáætlun og boðleiðir vegna slíkra mála eru til staðar og starfsfólki sýnilegar og aðgengilegar.
Ráðningar og starfsþróun
Við leggjum áherslu á að veita áreiðanlega og örugga þjónustu með framúrskarandi starfsfólki. Þess vegna sækjumst við eftir metnaðarfullu starfsfólki með fjölbreyttan bakgrunn. Við ráðningar skal unnið á faglegan hátt þar sem horft til hæfni umsækjanda þar sem leitast er að við að fá hæfasta einstaklinginn á hverjum tíma. Við nýráðningar sem og starfsþróun skal unnið að jafnri kynjaskiptingu og fjölbreytileika innan sviða, deilda og starfahópa.
Jöfn laun
Við leggjum áherslu á að bjóða samkeppnishæf laun við önnur sambærileg störf á markaði. Við fylgjum jafnréttislögum og förum eftir reglum jafnlaunakerfis sem tryggir jafnræði í öllum launaákvörðunum. Launamunur skal aðeins endurspegla mismunandi ábyrgð, eðli starfa, hæfni og frammistöðu í starfi. Allt starfsfólk skal njóta sömu launakjara fyrir sambærileg og jafn verðmæt störf. Einnig skal allt starfsfólk njóta sömu kjara hvað varðar lífeyris-, orlofs- og veikindarétt og hver önnur starfskjör eða réttindi sem metin verða til fjár. Mannauðsstjóri og stjórnendur skulu einnig skuldbinda sig til að viðhalda stöðugum umbótum og eftirliti og bregðast við óútskýrðum launamun og þeim frávikum sem koma fram við rýni á jafnlaunakerfinu.
Þjálfun og endurmenntun
Við leggjum áherslu á að þróa hæfni starfsfólks með sí– og endurmenntun í takt við núverandi og framtíðar áskoranir í starfi. Allt starfsfólk skal njóta sömu möguleika til sí- og endurmenntunar sem og til starfsþjálfunar. Við leggjum áherslu á að starfsfólk sýni frumkvæði og metnað til að þróast í starfi, miðla og deila þekkingu og upplýsingum.
Mannréttindi, barnaþrælkun og nauðungarvinna
Við virðum mannréttindi, líðum ekki barnaþrælkun eða nauðungarvinnu og förum að lögum og reglum er þetta varðar.
Umfang, ábyrgð og endurskoðun
Stefnan nær til alls starfsfólks og er órjúfanlegur hluti af heildarstefnu fyrirtækisins.
Forstjóri í samvinnu við Mannauðsstjóra ber ábyrgð á stefnunni sjálfri og annast framkvæmd hennar, endurskoðun og kynningu á henni.
Endurskoða skal stefnuna á þriggja ára fresti og oftar ef þörf krefur, til að tryggja að hún samræmist lögum og stefnu Mílu á hverju tíma. Hún er lögð fyrir og staðfest af framkvæmdastjórn og undirrituð af forstjóra Mílu.
Gildistími
Þessi stefna tekur gildi frá og með 1. september 2023 og verður næst endurskoðuð í ágúst 2026.
Útgáfa 3.0
Reykjavík, 1.9.2023
Erik Figueras Torras
Forstjóri