27. nóvember 2015

18 nýir Ljósveitustaðir á landsbyggðinni

Alls eru nýir staðir á landsbyggðinni 18 talsins sem tengdir hafa verið með Ljósveitu á þessu ári. Þar á meðal eru 13 símstöðvar þar sem xDSL búnaður hefur verið uppfærður og fimm sveitafélög þar sem búnaður fyrir ljósleiðaraheimtaugar hefur verið settur upp.

Þær 13 símstöðvar þar sem xDSL búnaður hefur verið uppfærður í eru Breiðamýri, Reykhólar, Nesjar, Þykkvibær, Gunnarshólmi, Njálsbúð, Hrísey, Klafastaðir, Ársskógssandur, Svalbarðseyri, Grenivík, Hallormsstaður og Rif.

Við þessa breytingu hafa íbúar á þessum stöðum nú möguleika á fullri sjónvarpsþjónustu, s.s. Vod þjónustu í sjónvarpi. Einnig hafa þeir íbúar sem búa í innan við 1000 metra fjarlægð frá símstöð kost á Ljósveitu sem gefur m.a. allt að 50 Mb/s internethraða.

Fimm sveitafélög hafa einnig verið tengd Ljósveitu. Þar hefur verið settur upp búnaður fyrir ljósleiðaraheimtaugar (GPON) í símstöðvum og hafa íbúar á þessum stöðum nú möguleika á 100 Mb/s internethraða auk fullrar sjónvarpsþjónustu.  Nú síðast var lokið við að setja upp búnað og prófa fyrir Ásahrepp, og er búið að opna fyrir pantanir á ljósleiðaratengingum fyrir íbúa þar.  Aðrir staðir þar sem lokið hefur verið við að setja upp GPON búnað eru Helgafellssveit, Eyjafjarðarsveit, dreifbýli Dalvíkurbyggðar og Hörgársveit og er opið fyrir pantanir á ljósleiðaratengingum fyrir íbúa þessara byggðalaga. Búnaður fyrir ljósleiðaraheimtaugar hefur einnig verið settur upp í dreifbýli Eyja og Miklaholtshrepps og verður kerfið þar tilbúið fyrir pantanir á næstu vikum.