1. mars 2023

Þjónusta Mílu yfir IRIS er komin í loftið

Frá og með deginum í dag, 1. mars hefur IRIS, nýr sæstrengur á vegum Farice ehf. milli Írlands og Íslands, verið tekinn í notkun og við hjá Mílu erum klár með okkar þjónustu yfir strenginn. 

Míla hefur undanfarna mánuði unnið að uppsetningu búnaðar og fjarskiptasambanda í Dublin til að vera tilbúin til að veita þjónustu yfir IRIS sæstrenginn. Nú þegar strengurinn hefur verið gangsettur, er þjónusta Mílu yfir IRIS sæstrenginn komin í notkun og orðin hluti af fjarskiptainnviðum og heildarþjónustu Mílu við innlend og erlend fjarskiptafyrirtæki.

Með tilkomu þessarar nýju leiðar milli Íslands og meginlands Evrópu hefur öryggi fjarskipta landsins stóraukist þar sem um þrjár leiðir er að velja til Evrópu þar sem áður voru einungis tvær um FARICE og DANICE sæstrengina. IRIS sæstrengurinn er jafnframt styttri leið til umheimsins en áður hefur verið í boði auk þess sem afkastagetan er umtalsvert meiri. Þetta hefur í för með sér að svartími styttist og þjónusta sem sótt er erlendis frá s.s. skýjaþjónusta af ýmsum toga, Facebook, Twitter, Netflix og fleiri vefir verða hraðvirkari og liprari í notkun. Þá hefur Míla jafnframt sett upp fjarskiptaaðstöðu í Dublin á Írlandi til þess að auka rekstraröryggi enn frekar, stytta leiðir vestur um haf og komast nær mikilvægum skýjaþjónustum hýstum á Írlandi (s.s. Amazon, Google og Microsoft). Míla hefur einnig samtengt alla fjarskiptastaði sína í Evrópu til að bæta öryggi útlandasambanda enn frekar.

Öruggur rekstur fjarskiptainnviða er ætíð í fyrirrúmi hjá Mílu og því eru þessi tímamót okkur mikið fagnaðarefni. Við óskum jafnframt Farice ehf. og Íslendingum öllum til hamingju með þessa nýju upplýsingahraðbraut til landsins.