20. febrúar 2023

Öflugur liðsauki hjá Mílu

Míla hefur ráðið til sín tvo nýja starfsmenn sem þegar hafa hafið störf. Ingvar Bjarnason hefur verið ráðinn til að stýra vöruþróun hjá fyrirtækinu og Inga Helga Halldórudóttir hefur verið ráðin lögfræðingur Mílu og tekur hún jafnframt sæti í framkvæmdastjórn. 

Inga Helga Halldórudóttir kemur til Mílu frá Orkustofnun þar sem hún starfaði sem lögfræðingur á skrifstofu orkumálastjóra. Inga Helga er með LLM gráðu frá Freie Universität Berlin með sérstaka áherslu á samkeppnis- og fjarskiptarétt. Þá er hún með ML gráðu og BA gráðu í lögfræði frá Háskólanum í Reykjavík.

Inga Helga starfaði hjá Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) í Brussel í um 7 ár, sem „Senior Legal Officer“, þar sem hún fékkst að miklu leyti við mál er vörðuðu samkeppnis- og fjarskiptarétt og ríkisaðstoð. Áður en hún fór til Brussel starfaði Inga hjá Samkeppniseftirlitinu og þar áður hjá Fjarskiptastofu.

Ingvar Bjarnason kemur til Mílu frá Nova þar sem hann hafði umsjón með vöruþróun og lausnaráðgjöf á fyrirtækjamarkaði. Ingvar er verkfræðingur að mennt, en hann er með B.Sc. gráðu í Véla- og Iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands.

Áður starfaði Ingvar hjá Símafélaginu þar sem hann gegndi stöðu yfirmanns tæknisviðs, allt þar til fyrirtækið sameinaðist Nova og Ingvar hóf störf þar. Þar áður starfaði hann hjá CCP sem forstöðumaður upplýsingatækni og fyrir það var hann forstöðumaður kerfisreksturs hjá Símanum.