10. febrúar 2023

Nýr strengur yfir Arnarfjörð

Síðasta sumar var lagður nýr strengur yfir Arnarfjörð á Vestfjörðum, en það var Sjótækni á Tálknafirði sem sá um verkið. Á dögunum var svo lokið við að verja strenginn með stálhlífum þar sem hann liggur á grófum sjávarbotni. 

Síðasta sumar fórum við í það verkefni að leggja nýjan sæstreng yfir Arnarfjörð á Vestfjörðum, í stað eldri strengs sem þurfti að skipta út vegna slits. Verkefnið var unnið í samstarfi við Sjótækni ehf. á Tálknafirði, sem er verktakafyrirtæki sem sinnir uppsetningu, eftirliti, viðhaldi og þjónustu mannvirkja í sjó og vatni. Lokið var við lagningu síðasta sumar og strengurinn tekinn í notkun í kjölfarið.

Á dögunum var svo lokið við að setja stálhlífar um strenginn, en þeim er fyrst og fremst ætlað að hlífa strengnum á svæðum þar sem hannliggur á grófum sjávarbotni, svo sem í grjóti næst landi, en sjávarföll og veður geta hreyft við sjávarbotninum og gróft undirlag getur þá valdið skemmdum á strengnum og því mikilvægt að verja hann á þeim svæðum.

Sæstrengurinn yfir Arnarfjörð er mikilvægur fyrir fjarskipti á vestfjörðum en hann er hluti af landshring Mílu og hringtengingu Vestfjarða. Það liggja tveir strengir yfir Arnarfjörð og þjóna þeir sem varaleið hvor fyrir annan, þannig að ef annar slitnar, þá fara samböndin um hinn. Þannig er öryggi fjarskipta betur tryggt.