26. apríl 2024

Niðurlagning koparheimtaugakerfis Mílu

Míla vinnur að því að leggja niður eldra heimtaugakerfi sitt yfir kopar, samhliða umfangsmikilli uppbyggingu fyrirtækisins á ljósleiðara til heimila um allt land.  

Síðustu ár hefur Míla unnið að því að leggja niður kopar heimtaugakerfi sitt samhliða umfangsmikilli uppbyggingu fyrirtækisins á ljósleiðara til heimila í þéttbýli um allt land. Í stórum hluta götuskápa og símstöðva eru aðeins örfáar virkar kopartengingar eftir og víða eru ekki neinar virkar tengingar eftir. Áætlar Míla að hætta alveg rekstri koparkerfisins á næstu misserum, á sama tíma og aðrar lausnir verða tiltækar.

Hafin er vinna við að taka úr rekstri götuskápa og símstöðvar þar sem mögulegt er að færa virkar kopartengingar sem eftir eru yfir á ljósleiðara Mílu. Verkið verður unnið í nokkrum áföngum á næstu misserum og í nánu samstarfið við fjarskiptafyrirtækin sem eru með viðkomandi tengingar til umráða.

Koparheimtaugakerfið var eitt víðtækasta fjarskiptakerfi landsins, en öll heimili og atvinnurými hafa tengingu við kerfið. Hefur það þjónað landsmönnum í yfir 100 ár, fyrst aðeins fyrir talsíma, en á seinni árum einnig fyrir háhraða gagnaflutning, með VDSL tækni.