8. desember 2023

Míla tífaldar nethraða á Akureyri

Við færum Akureyringum tíu sinnum meiri nethraða um vettvanginn 10x á næstunni. Það felur í sér meiri hraða og betri upplifun fyrir heimilin og atvinnulífið á Akureyri. Akureyri er fyrsta bæjarfélagið utan höfuðborgarsvæðisins sem mun tengjast 10x vettvangi Mílu. 

Míla mun bjóða Akureyringum tíu sinnum meiri nethraða um vettvanginn 10x. Erik Figueras Torras, forstjóri Mílu, kynnti þetta á Akureyri í dag, þriðjudaginn 5. desember. Hann segir að með þessu sé fyrirtækið að bjóða sína bestu þjónustu í bæjarfélaginu sem felur í sér meiri hraða og betri upplifun endanotenda. „Við þurfum að horfa fram á veg í uppbyggingu okkar fjarskiptainnviða bæði fyrir heimili og atvinnulíf. Þörfin fyrir öflugar nettengingar til heimila eykst hratt með hverju ári. Heimilum á Akureyri mun fljótlega standa til boða að panta nettengingu hjá sínu fjarskiptafélagi með 10 gígabita á sekúndu nethraða í báðar áttir. Það er tíu sinnum meira en það besta sem þekkist í dag og er gríðarstórt stökk fyrir tengingar heimila,“ segir Erik. 

Við lok sumars kynnti Míla viðskiptavinum sínum sem eru helstu fjarskiptafélög landsins, 10x meiri hraða á ljósleiðara Mílu til heimila. Sú þjónusta yrði fyrst í boði fyrir heimili á höfuðborgarsvæðinu en síðar myndi landsbyggðin bætast við. Sú uppbygging er nú hafin og byrjar á Akureyri. 

10x vettvangurinn gerir fjarskiptafélögum landsins kleift að bjóða heimilum mun öflugra samband en áður hefur þekkst þökk sé XGS-PON tækni. 10x vettvangurinn býður upp á þrjá hraða: 2,5, 5 og 10 gígabit á sekúndu í báðar áttir.  

XGS-PON stendur fyrir 10 gígabita PON aðgangstækni og nýtir hún fyrirliggjandi ljósleiðaralagnir þeirra heimila sem eiga kost á tenginu frá Mílu. Uppfæra þarf búnað á báðum endum ljósleiðarans til að geta veitt svo mikinn hraða og hefur Míla þegar uppfært sín megin, og er búnaður uppfærður innan heimilis eða atvinnurýmis í kjölfar pöntunar. Fjarskiptafélögin munu bjóða upp á netbúnað sem styður þann hraða sem viðskiptavinir þeirra panta.

Rík þörf fyrir 10x
Þróun nethraða, aukin afköst og innleiðing nýrrar aðgangstækni í ljósleiðarakerfum Mílu er afar þýðingarmikil fyrir heimilin í landinu. Sjónvarpsþjónusta í miklum gæðum, tölvuleikjaspilun, fjarvinna með mikið gagnamagn og gagnvirkni krefst sítengingar við net og mikils hraða. Hægt verður að tengja mörg tæki við netið samtímis án þess að það hægi á sér. Áætlað hefur verið að mjög bráðlega verði að meðaltali yfir 20 nettengd tæki á hverju heimili. Snjallsímar, snjalltæki, tölvur, sjónvörp, myndlyklar, ryksuguvélmenni, öryggismyndavélar, rafbílar og önnur tæki munu krefjast stöðugs sambands og mikillar bandbreiddar. Myndstreymi í 8K gæðum, gervigreind, sýndarheimar og skýjalausnir kallar allt á betri tengingar. Svo er aldrei að vita hvað framtíðin ber í skauti sér og margt ófyrirséð sem gæti nýtt sér aukna getu.