23. október 2023

Míla styður Kvennaverkfallið á morgun

Míla styður starfsfólk sitt á þriðjudag, þegar konur og kynsegin fólk munu leggja niður störf. Hvorki verður dregið af launum þeirra kvenna og kvára hjá fyrirtækinu sem leggja munu niður störf, né af launum karla sem að taka vaktina á heimilinu á þessum degi.

„Við viljum sýna stuðning okkar í verki við þær konur og kvár sem ætla að leggja niður störf hjá okkur til að minna á jafnréttisbaráttuna og gera þeim kleift að gera það án þess að dregið sé af launum þeirra eða af öðrum réttindum.“ segir Erik Figueras Torras forstjóri Mílu. Hann styður þau sem kjósi að leggja niður störf og sækja samstöðufund á Arnarhóli.

Þrátt fyrir að stór hluti starfsfólks fjarskiptainnviðafyrirtækisins séu karlar skipa konur helming framkvæmdastjórnar fyrirtækisins og þrjár konur eru í stjórn Mílu: „Við viljum gera konunum og kynsegin fólki í lífi karlkyns starfsfólks okkar kleift að standa sína verkfallsvakt. Vegna þessa munum við sjá til þess að karlar í Mílu geti sinnt aðkallandi verkefnum með starfinu á þessum degi. Við munum þó alltaf gæta þess að öryggi fjarskipta sé tryggt,“ segir Erik.

Að sögn Erik tekur Míla jafnréttismál alvarlega. Mannréttinda- og mannauðsstefna Mílu kveður skýrt á um að mannréttindi séu virt í allri starfsemi fyrirtækisins og að enginn starfsmaður finni að á sig halli á neinn hátt. Lögð er áhersla á að skapa vinnuumhverfi með jöfnum tækifærum fyrir öll án tillits til kyns, kynvitundar, kynhneigðar, uppruna, þjóðernis, litarhafts, aldurs, fötlunar, trúar eða bakgrunns. Jafnlaunavottun Mílu síðustu ára hefur sýnt góðan árangur.