15. júlí 2022

Míla leggur ljósleiðara í dreifbýli Suðurnesjabæjar

Míla og sveitarfélagið Suðurnesjabær hafa undirritað samning um lagningu ljósleiðara í dreifbýli Suðurnesjabæjar, en sveitarfélagið fékk styrk frá verkefni Fjarskiptasjóðs Ísland ljóstengt til verksins. 

Samningurinn kveður á um að Míla sér um lokahönnun og lagningu ljósleiðarakerfis í dreifbýli Suðurnesjabæjar, en það eru alls 31 staðföng sem ljósleiðarinn verður lagður til. Verkefninu er skipt í þrjá áfanga;

  • golfskálinn Leira og nágrenni
  • frá Sandgerði til norðurs að Hafurbjarnarstöðum
  • frá Sandgerði til suðurs að Stafnesi.

Sveitarfélagið sér um að kortleggja þau heimilisföng sem skal tengja, auk þess að sjá um samskipti við skipulagsyfirvöld og Minjastofnun.

Vinna við verkefnið er hafin og áætluð verklok eru um miðjan september. Þá geta íbúar pantað þjónustu um ljósleiðarann hjá því fjarskiptafyrirtæki sem þeir kjósa að eiga viðskipti við.

Í sumar hefur Míla einnig unnið að lagningu ljósleiðara í þéttbýli sveitarfélagsins, bæði í Sandgerði og í Garði. Áform gera ráð fyrir framhaldi þeirrar vinnu á næsta ári.

Loks má nefna að stór hluti fyrirtækja í þéttbýli sveitarfélagsins getur nú fengið aðgang að ljósleiðara hjá Mílu. Upplýsingar um það má fá hjá fjarskiptafélagi viðkomandi fyrirtækis.