23. september 2015

Ljósleiðari Mílu til 30 þúsund heimila

Míla stefnir að því að ljúka við að tengja 30.000 heimili á höfðuborgarsvæðinu við ljósleiðaranet sitt fyrir lok næsta árs.

Síðustu ár hefur Míla lagt háhraðatengingar til heimila með Ljósveitu.  Ljósveita er net ljósleiðara í götuskápa við hús notenda á höfuðborgarsvæðinu.  Síðasti hlutinn frá götuskáp og inn til notenda getur verið bæði koparendi og ljósleiðaraendi. Nú þegar hafa öll heimili á höfuðborgarsvæðinu kost á að tengjast þessu neti Mílu og fá þar með 100 Mb/s tengingu til heimilis.
 
Í dag er stærstur hluti tenginga á svæðinu með koparenda frá götuskáp og inn til notenda.  Verkefni Mílu á komandi árum verður að bæta við ljósleiðaraenda frá götuskáp inn til notenda og áætlar Míla að ljúka við að tengja 30.000 heimili á höfuðborgarsvæðinu við ljósleiðaranet sitt, Ljósveitu með ljósleiðaraenda, fyrir lok árs 2016.
 
Með uppbyggingu Ljósveitu síðustu ár hefur Míla sett upp mikin fjölda götuskápa og tengt ljósleiðara inn í þessa skápa sem staðsettir eru í öllum íbúðarhverfum á höfuðborgarsvæðinu. Einnig á fyrirtækið ljósleiðara og rör sem nær inn á stóran hluta heimila á höfuðborgarsvæðinu. Þessar eignir Mílu, þ.e. ljósleiðari í götuskáp ásamt ljósleiðurum og rörum inn á heimili gerir tengingu Ljósveitu með ljósleiðaraenda að hagkvæmum valkosti við áframhaldandi uppbyggingu aðgangsnetsins. Eins og áður segir þá stefnir Míla að því að ljúka við að tengja 30.000 heimili á höfðuborgarsvæðinu við Ljósveitu með ljósleiðaraenda fyrir lok næsta árs.