16. júní 2021

Ljósleiðari Mílu í Nátthaga kominn undir hraun

Hraunið frá eldgosinu er komið yfir ljósleiðara Mílu í Nátthaga. Sambönd verða færð yfir á nýjan streng, en áfram verður fylgst með afdrifum ljósleiðarans undir hrauninu.

Hraunið frá eldgosinu hefur nú náð að renna yfir ljósleiðara Mílu í Nátthaga, en það gerðist um klukkan 8 í morgun. Þau fjarskipti sem eru á strengnum virka vel og það er í samræmi við tilraunir Mílu um hraunflæði yfir ljósleiðarastreng sem gerðar voru við varnagarðana í Geldingadölum. Til þess að tryggja rekstur fjarskipta mun Míla færa samböndin af strengnum og yfir á nýjan streng sem liggur nær Suðurstrandarvegi í nótt, aðfaranótt 17. júní. Við munum áfram fylgjast með strengnum í Nátthaga í gegnum mælitæki okkar til þess að fá sjá hvernig og hvaða áhrifum strengurinn verður fyrir við það að liggja undir glóandi hrauni til lengri tíma.