11. mars 2024

Ljósbylgja á 400 gígabita hraða

Míla býður nú upp á ljósbylgjusamband hringinn í kringum allt Ísland með möguleika á allt að 400 gígabitum á sekúndu hraða. 

Ljósbylgja er einkaljósrás eða frátekin tíðni/tíðnisvið yfir ljósbylgjukerfi Mílu. Ljósbylgjan er flutt yfir sveigjanlega tíðnigrind, eða Flexi-grid, sem aðlagar sig að stærð viðkomandi ljósbylgju sem býr til svigrúm fyrir stækkanir og möguleika á mjög stórum samböndum. Ljósbylgju 400x er stýrt með stafrænum ljósrásaskiptum (e. Wave selecting switch) og með þeim hætti er hægt að flytja mikla bandvídd með miklu öryggi og með afbragðs svartíma um land allt. Ljósbylgja 400x hentar ýmsum fyrirtækjum og stofnunum sem þurfa tryggt samband fyrir sinn rekstur.

Ljósbylgja 400x getur veitt 400 gígabita á sekúndu og hentar fyrirtækjum og stofnunum. 

 Áhersla á fjarskiptaöryggi

 Ljósbylgja 400x verður byggð upp í tveimur fösum og er þeim fyrsta lokið. Nú eru í boði 19 afhendingarstaðir á ljósleiðarahring, ásamt hálendisleið yfir Kjöl, sem myndar tvo samtengda hringi, sem er lykilatriði við að veita fjarskiptaöryggi. Við lok þessa árs verður seinni fasa lokið, sem fjölgar afhendingarstöðum um sjö og nethraðinn 400 gígabitar á sekúndu bætist við. Þá færist kerfishögun upp í tvöfalt hringkerfi, ásamt viðbótar innri og ytri hringjum til að gera kerfið eins öruggt og mögulegt er. Í fjarskiptamiðjum Mílu verður hægt að skipta rafrænt á milli flutningsleiða á ljósleiðaralagi.

Ekki bara 400 gígabitar

Mesti mögulegi hraði um Ljósbylgju 400x eru 400 gígabitar á sekúndu, en það eru fimm nethraðar í boði: 1, 10, 25, 100 og 400 gígabitar á sekúndu. Gjaldfært er fyrir þjónustu eftir vegalengd á milli tveggja tengipunkta: 0-25, 25-50, 50-100, 100-200, 200-300 og yfir 300 kílómetra. Vegalengd byggir á beinlínuvegalengd á milli tveggja afhendingarstaða og er gjaldskráin því óháð landfræðilegri staðsetningu. Mesta mögulega flutningsgeta á ljósbylgjukerfi með sveigjanlegri tíðnigrind getur tryggt allt að 1,6 Tb/s á einni ljósbylgju. Flutningsleiðir eru vaktaðar allan sólarhringinn, alla daga, allt árið. Á öllum afhendingarstöðum er í boði e-PRC hágæða sesín frumeindaklukka (SYNC) með tryggðum langtíma-stöðugleika (SyncE/PTP).