21. apríl 2023

Ísland í fyrsta sæti fjórða árið í röð

Fjórða árið í röð er Ísland á toppnum meðal Evrópulanda þegar kemur að hlutfalli heimila með virka tengingu við ljósleiðara, samkvæmt yfirliti samtakanna FTTH Council Europe.

Það getur verið fróðlegt að leita alþjóðlegs samanburðar þegar við Íslendingar metum hversu vel okkur gengur á ólíkum sviðum. Það á ekki síst við um okkur í síkvikri upplýsinga- og fjarskiptatækni.

Samtökin FTTH Council Europe, er samstarfsvettvangur fyrirtækja sem hafa að meginmarkmiði stuðning við þróun og uppbyggingu aðgangsneta um ljósleiðara í Evrópu. Á dögunum birtu samtökin fróðlegt yfirlit um stöðu ljósleiðaratenginga í Evrópu. Þessum árlega samanburði er ætlað að vera meiri hvatning til að þétta og styrkja net ljósleiðara í ríkjum Evrópu.

76,8 % íslenskra heimila nota ljósleiðara.

Ísland er í fararbroddi Evrópu fjórða árið í röð þegar kemur að fjölda virkra tenginga. Alls eru 76,8 prósent heimila á Íslandi tengd, þar á eftir kemur Spánn með 73,6 prósent og Portúgal með 71,1. Frændþjóðir okkar á Norðurlöndunum Svíar og Norðmenn hafa 67,5 prósent heimila ljósleiðartengd, Danir 43 prósent og Finnar með 42,7 prósent.

Stóru Evrópuríkin eiga töluvert í land við að tengja heimili og fyrirtæki við ljósleiðara. Frakkland stendur sig vel en þar eru yfir 55 prósent heimila með virka tengingu við ljósleiðara. Aftur á móti eru Ítalía, Bretland og Þýskaland mjög aftarlega í þessum málum. Á Ítalíu eru aðeins 12.5 prósent heimila tengd ljósleiðara. Í Bretlandi eru það einungis 11 prósent og í Þýskalandi er hlutfallið enn lægra, eða 7 prósent.

Þessi samanburður við Evrópu sýnir hversu framarlega við erum þegar kemur að aðgengi heimila og fyrirtækja að háhraðatengingum. Hann undirstrikar hversu vel okkur hefur gengið að ljósleiðaravæða heimilin í strjálbýlu landi.

Ljósleiðarar lífsgæði

Ljósleiðarar eru umhverfisvænir innviðir til langrar framtíðar sem bjóða stafræna tækni og þjónustu fyrir samfélög. Sjálfbær framtíð þjóða snýst ekki einvörðungu um verndun umhverfis heldur einnig að víðtækum ávinningi samfélagsins og íbúa, og efnahagslegum styrk. Öflug fjarskiptatækni og ljóðsleiðaravæðing leikur mikilvægt hlutverk því hún leiðir af sér nýsköpun og tækifæri til aukinna lífsgæða. Með tengingum við alla alls staðar umbreytir hún og eflir okkar líf, viðskipti og samskipti. Aukið streymi miðla og meiri útbreiðsla gervigreindar á næstu árum mun kalla á háhraðatengingar.

Samstillt átak

Þessi íslenski árangur er ekki sjálfsagður. Hann byggir á öflugu framtaki fyrirtækja, sterkri stjórnsýslu fjarskipta- og samkeppniseftirlits og framsýni stjórnmálaleiðtoga á mikilvægi tenginga um land allt.

Miklu skiptir fyrir lífskjör á Íslandi og samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs að viðhalda þessu forskoti fjarskiptainnviða. En þótt gangi vel og við séum fremst þjóða er enn nokkuð í land að allt landið sé ljósleiðaratengt. Þar getum við gert betur og tengt dreifðari byggðir við framtíðarsamskipti. Mikið er undir að sem flestum bjóðist þátttaka í uppbyggingu stafræns samfélags.

Uppbygging Mílu

Míla vinnur hörðum höndum að því að ljósleiðaravæða heimili landsins. Tengist það ekki síst því að á næstu árum verður eldra kerfi Mílu á kopar lagt niður. Því þarf Míla fjárfesta meira á þessu ári í ljósleiðaravæðingu heimila og fyrirtækja en nokkru sinni. Á þessu ári setjum við 5 milljarða kr. í uppbyggingu fjarskiptainnviða og stefnan er að fjárfesta fyrir allt að 30 ma. kr. á næstu fimm árum. Það veit á gott fyrir íslenskt samfélag.