2. ágúst 2023

Hvaða áhrif hefur hraunflæði á strengi í jörðu?

Míla leggur til ljósleiðarastreng til vísindalegra prófana þar sem rannsaka á hvaða áhrif hitinn frá hrauni hefur á mikilvæga innviði. Strengurinn virkar sem hitamælir og nemur hann hitann sem safnast í jarðveginum undir glóandi hrauni.

  • Profunarverkefni_2

Míla er þátttakandi í verkefni sem Almannavarnir, verkfræðistofan Verkís, Tensor, Landsnet, og Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands standa nú fyrir ásamt fleirum, þar sem ætlunin er að meta öryggi innviðastrengja, mastra og lína á eldgosasvæði. Um vísindalega tilraun er að ræða og munu niðurstöður nýtast innviðafyrirtækjum og vísindasamfélaginu þegar meta þarf margskonar aðstæður sem komið geta upp við eldgos.

Okkar hlutverk í prófunum

Míla gegnir mikilvægu hlutverki í prófununum sem nú eru að fara í gang, en þar leggjum við til ljósleiðarstreng sem notaður verður til hitamælinga í jarðvegi undir glóandi hrauni. Okkar menn lögðu strenginn um 3 - 4. km leið að prófunarstaðnum og fóru þeir fótgangandi með strengnum til að gæta þess að lega hans sé rétt. Hluti strengsins er grafinn í jörðu við jaðar eldra hraunsins þar sem nýja hraunið er komið að jaðrinum. Strengurinn nemur hitastigið sem myndast í jarðveginum undir glóandi hrauninu þegar það hefur náð til hans, sem gerir mögulegt að greina hvaða áhrif hitinn frá hrauninu hefur á strenginn og hversu lengi hann þolir hitann. Hitamælingar eru komnar í gang og allt virkar vel og nú er aðeins beðið eftir að hraunflæðið nái yfir prófunarsvæðið. Eldgosið er þó aðeins að stríða okkur og hefur hægt verulega á gosinu. En enn er nægt hraunflæði frá gosinu og vonum við að hraunið muni ná yfir prófunarsvæðið á næstunni.

Við erum alltaf tilbúin að leggja okkar að mörkum til vísinda. Við stóðum fyrir svipaðri prófun á ljósleiðara undir hrauni í fyrsta gosinu í Fagradalsfjalli árið 2021, og þar var þol ljósleiðarans meðal annars prófað og reynt að varpa ljósi á hversu lengi strengurinn er starfhæfur eftir að glóandi hraun hefur lagst yfir lagnaleið hans. Voru það verðmætar upplýsingar sem fengust í þessum prófunum. 

Mikilvægi prófana

Fjarskiptaöryggi skiptir máli í nútímasamfélagi og fjölmargt í okkar daglega lífi er háð nettengingu. Auk þess er fjarskiptasamband nauðsynlegt s.s. þegar slys eða önnur atvik verða og gera þarf viðbragðsaðilum eða öðrum viðvart. Mælingar eins og þessar eru mikilvægar fyrir innviðafyrirtæki eins og okkur til að afla upplýsinga sem gagnast okkur við að gera ráðstafanir til að verja okkar fjarskiptainnviði þegar náttúruhamfarir eins og eldgos verða. Eldstöðin á Reykjanesi er vöknuð og má búast við að það gjósi þar öðru hvoru næstu áratugina og jafnvel næstu árhundruðin. Það er því nauðsynlegt að vera við öllu búin.