11. nóvember 2015

Háhraðanets uppbygging Mílu skilar árangri

Ísland ber höfuð og herðar yfir nágrannaþjóðir þegar kemur að háhraðatengingum til heimila

Fjarskiptaeftirlitsstofnanir á Norðurlöndum hafa um nokkurra ára skeið gefið árlega út sameiginlega skýrslu þar sem mikilvægir þættir fjarskiptanotkunar íbúa í viðkomandi löndum eru bornir saman. Eystrasaltslöndin hafa svo bæst við skýrsluna á síðustu þremur árum og eru Eistland, Litháen og Lettland þátttakendur í samanburðinum. Alls er samanburðurinn gerður milli átta landa.

Meðal þess sem mælt er í þessari skýrslu er háhraðanets áskriftir yfir fasta línu. Þar stendur Ísland framar öðrum löndum sem borin eru saman í skýrslunni. Í árslok 2014 voru 0,26 háhraðanets áskriftir á hvern íbúa hér á landi með meira en 30 Mb/s internethraða. Næsta land á eftir Íslandi er Svíþjóð þar sem 0,17 áskriftir á hvern íbúa eru með meira en 30 Mb/s internethraða. Þennan árangur má rekja að stórum hluta til þess að síðustu ár hefur Míla unnið að uppbyggingu ljóstenginga til yfir 90% heimila á landinu. Ljóstengingar Mílu veita heimilum 50 – 100 Mb/s internethraða og eru þær aðgengilegar í þéttbýli um land allt.

Mynd 1. Tölur yfir háhraðanets áskriftir 30 Mb/s og hærri. Samanburðarskýrsla um fjarskiptanotkun á Norðurlöndum og Eystrasaltslöndum 2014. (www.pfs.is)

Í dag hafa  fjölmörg heimili á flestöllum þéttbýlisstöðum á landsbyggðinni möguleika á allt að 50 Mb/s tengingu frá símstöð, en aðeins næst til þeirra heimila sem staðsett eru innan við kílómeters fjarlægð frá viðkomandi símstöð. Með þessari aðferð hefur Mílu tekist að koma háhraðatengingu til fjölda heimila um land allt og eru um 90% heimila á landinu öllu nú þegar komin með ljóstengingu Mílu sem mögulegan kost hvað varðar fjarskiptatengingar. Uppbygging á kerfum Mílu heldur áfram og er stefnt að því að ljúka uppbyggingu ljóstenginga Mílu á öllum þéttbýlisstöðum á landinu á næstu þremur árum. 

Míla hefur að auki hafið tengingu og lagningu ljósleiðaraenda síðasta spölinn til heimila á höfuðborgarsvæðinu. Þar með verður í boði hjá Mílu ljóstenging til heimila, bæði með kopar- og ljósleiðaraenda. Þetta er liður í uppbyggingu aðgangsnets Mílu til að fullnægja framtíðar bandvíddarþörfum heimila. Ljóstenging Mílu á höfuðborgarsvæðinu er gegnum ljósleiðara Mílu í götuskápa sem eru staðsettir í nágrenni við heimilin.  Míla hefur í gegnum tíðina lagt ljósleiðara, rör og aðrar lagnir í nýbyggingar og því eru víða innviðir til staðar til að ganga frá þessari viðbótartengingu án mikils tilkostnaðar og jarðrasks.

Niðurstöður samanburðarskýrslu er að finna á heimasíðu Póst- og fjarskiptastofnunar www.pfs.is