18. janúar 2023

Fjarskipti í rafmagnsleysi á Reykjanesi

Rafmagnsleysið sem kom upp á Reykjanesi mánudaginn 16.janúar, hafði áhrif á fjarskipti á svæðinu. 

Rafmagnsleysið stóð í tæpa 3 klukkutíma, eða frá kl. 15:10 til kl. 17:56. Götuskápar duttu út á meðan á rafmagnsleysi stóð og var hluti nettenginga til heimila í þéttbýli því úti. Ljóstengingar til heimila voru virkar, en þar sem sjaldgæft er að heimili búi yfir varaafli, þá missa heimilin almennt aðgang að interneti við rafmagnsleysi. 

Óvenju mikil aukning varð á notkun farsímadreifikerfa á þessu tímabili sem hafði áhrif á aflnotkun og var aukningin langt umfram áður þekkta notkun. Þessi mikla aukning í aflnotkun hafði tvennskonar áhrif, rafgeymar tæmdust hraðar en áætlað var og yfirálag sló út rafgeymaöryggi í símstöðvum í Keflavík og í Garði. Í framhaldi jókst álag á aðrar stöðvar í nágrenninu með þeim afleiðingum að upplifun notenda á þessum stöðvum var slæm og afköst á interneti urðu lítil á hvern notanda. Þetta hafði einni þau áhrif að sumstaðar varð farsímasamband innandyra slæmt, en samband utandyra almennt í betra lagi. Allur miðlægur búnaður var á varaafli allan tímann. 

Míla er að fara í úrbætur á rafgeymaöryggjum á svæðinu til að mæta auknu álagi ef álíka aðstæður skapast. Þá er verið að skoða að setja upp fasta rafstöð inni á Keflavíkurstöð.