8. apríl 2024

Farnet í bílakjöllurum - ný þjónusta hjá Mílu

Míla býður viðskiptavinum sínum þjónustu við að setja upp farnetssenda í stærri bílakjöllurum. 

Stórum fjölbýlishúsum hefur fjölgað mikið síðustu ár og hafa stór fjölbýlishverfi byggst upp víða um höfuðborgarsvæðið. Þessum hverfum fylgja oft niðurgrafnir bílastæðakjallarar með einkabílastæðum sem fylgja íbúðum húsa. Síma- og netsamband er nauðsynlegt í slíkum bílastæðakjöllurum, hvort sem það er fyrir almennt öryggi íbúa sem nota bílastæðin, netsamband fyrir öryggis- og eftirlitskerfi, eða fyrir rafhleðslustöðvar. En farsímasambandi getur verið ábótavant í slíkum bílastæðakjöllurum, þar sem ytri farsímasendar ná ekki að veita viðunandi samband þar niður. 

Ný þjónusta hjá Mílu

Míla hefur brugðist við þessum vanda og hefur þróað nýja þjónustu þar sem fyrirtækið setur upp farsímasenda í stærri bílastæðakjöllurum til að koma upp virku farsímasambandi. Öll fjarskiptafyrirtæki sem bjóða farsímaþjónustu til endanotenda geta nýtt sér þessa nýju þjónustu Mílu. Þjónustan miðast við bílastæðakjallara þar sem eru 80 bílastæði eða fleiri.
Lausnin hefur þegar verið sett upp í nokkrum bílastæðakjöllurum á höfuðborgarsvæðinu með góðum árangri. Hún hefur gefist vel þar sem hún er komin í notkun til að bæta farsímaþjónustu svo sem fyrir almenna farsímaumferð, betri gagnaflutning fyrir hleðslustöðvar og tengingar fyrir hússtjórnar- og eftirlitskerfi.