Aflétting kvaða - gleðitíðindi fyrir neytendur
Míla fagnar ákvörðun Fjarskiptastofu sem birt var í gær og felur í sér niðurfellingu kvaða á hendur Mílu á tveimur mikilvægustu undirmörkuðum fjarskipta á Íslandi þar sem yfir 80% landsmanna búa.
Míla fagnar ákvörðun Fjarskiptastofu sem birt var í gær og felur í sér niðurfellingu kvaða á hendur Mílu á tveimur mikilvægustu undirmörkuðum fjarskipta á Íslandi þar sem yfir 80% landsmanna búa, þar með talið stór-höfuðborgarsvæðinu. Það er mat Fjarskiptastofu að á því svæði ríki virk samkeppni og byggir þar á ítarlegri markaðsgreiningu sem fól í sér samstarf við innlenda hagsmunaaðila, Samkeppniseftirlitið og Eftirlitsstofnun EFTA í Brussel.
Míla er innviðafyrirtæki sem starfar á heildsölumarkaði fjarskipta á Íslandi. Öllum fjarskiptafyrirtækjum sem bjóða þjónustu til einstaklinga og fyrirtækja býðst aðgangur að kerfum, innviðum og þjónustu Mílu á samkeppnishæfum kjörum. Míla starfar á virkum samkeppnismarkaði og mætir öflugri samkeppni víða um land, ekki síst á stór-höfuðborgarsvæðinu og Norðurlandi.
Ákvörðun íslenskum neytendum í hag
Þessi ákvörðun er mikil gleðitíðindi fyrir íslenska neytendur. Virk samkeppni leiðir til aukins ábata neytanda og fyrirtækja og er þjóðfélaginu til mikilla hagsbóta. Virk samkeppni er einungis möguleg þegar keppinautar búa við jafna samkeppnisstöðu. Samkeppniseftirlitið hefur þýðingarmiklu hlutverki að gegna við að standa vörð um virka samkeppni, veita markaðsaðilum aðhald og ryðja úr vegi mögulegum hindrunum, sem og kvöðum sem ekki eru lengur réttlætanleg skilyrði fyrir.
Um leið og Míla fagnar þessari tímamóta ákvörðun Fjarskiptastofu vill fyrirtækið benda á að enn eru í fullu gildi kvaðir á Mílu á sömu mörkuðum samkvæmt ákvörðun Samkeppniseftirlitsins frá árinu 2022. Þær þyrfti að fella niður til samræmis við ákvörðun Fjarskiptastofu.