Mílusteinar

Mílusteinar 2015


Míla er heildsölufyrirtæki á fjarskiptamarkaði. Kjarnastarfsemi Mílu felst í að byggja upp og reka fjarskiptainnviði á landsvísu. Hlutverk Mílu er að selja lausnir sínar til fyrirtækja og stofnana sem stunda fjarskiptastarfsemi og felst sérhæfing hennar meðal annars í rekstri og ráðgjöf vegna uppbyggingar fjarskiptakerfa og aðstöðuleigu í tækjarýmum og möstrum.

Míla á og rekur öflugt og fjölþætt fjarskiptakerfi sem byggist upp á tveimur meginkerfum, Stofnneti og Aðgangsneti. Stofnnet Mílu sér um flutning fjarskipta milli símstöðva og fjarskiptastaða um allt land auk þess að sjá um tengingar við útlandasambönd.  Þetta er kjarni fjarskiptakerfisins sem tengir allar byggðir við landsnet fjarskipta.  Aðgangsnet Mílu sér um flutning frá símstöð til endanotanda.  Um er að ræða fjarskiptanet sem nær inn á nánast öll heimili og fyrirtæki í landinu. Auk þess býður Míla aðstöðuleigu fyrir viðskiptavini sína í tækjarýmum um allt land á um 600 stöðum.

Míla leggur mikla áherslu á stöðuga uppbyggingu fjarskiptakerfis síns, auk þess að setja á markað nýjar lausnir til að mæta þörfum markaðarins. Kerfi Mílu eru grunnur að fjölþættri fjarskiptaþjónustu um allt land og til útlanda hvort sem það eru fjarskipti fyrir almenning, fyrirtæki eða öryggisfjarskipti.

Breytt skipulag innan Mílu

Góð reynsla er af nýju skipulagi Mílu sem leit dagsins ljós í upphafi árs 2015. Niðurstaðan varð sú að velja grunnt skipulag sem byggir á sama grunni og áður. Í stað 3ja meginsviða, þá urðu þau 5, Stofnkerfi, Aðgangskerfi, Sala og þjónusta, Grunnkerfi og Hýsing. Stoðsviðin héldust óbreytt. 

Samkvæmt nýju skipuriti eru stjórnendur þessir: Framkvæmdastjóri Mílu er Jón Ríkharð Kristjánsson. Daði Sigurðarson stýrir Stofnkerfum, Kristinn Ingi Ásgeirsson Aðgangskerfum,  Hrund Grétarsdóttir stýrir Þjónustu og sölu. Þá stýrir  Ingimar Ólafsson Grunnkerfum og Svanur Baldursson Hýsingu. Stjórnendur stoðsviða eru: Auður Inga Ingvarsdóttir lögfræðingur, Halldór Guðmundsson Tæknistoð og Sigrún Hallgrímsdóttir er fjármálastjóri.

Alls störfuðu 104 hjá Mílu í lok árs 2015 í jafnmörgum stöðugildum 
Svið innan Mílu voru 7 í lok árs 2015 - aðalsviðin 5 og 2 stoðsvið  

Flestir fjarskiptainnviðir landsins í eigu Mílu

Míla er stærsti eigandi fastra fjarskiptainnviða á Íslandi. Netin samanstanda af ljósleiðurum og koparstrengjum sem liggja í jörðu, föstum örbylgjusamböndum og virkum búnaði sem sér um flutning fjarskipta milli staða.

Landshringurinn svokallaði er um 1.400 km að lengd og sér um flutning fjarskipta hringinn í kringum landið og tengingar við útlandasambönd. Míla hefur  yfir að ráða þremur þráðum hringinn í kringum landið og tveimur að auki á flestum leiðum. Þrír þræðir eru á forræði ríkisins.  Míla sér um rekstur og viðhalds landshringsins.

Vöktun fjarskiptainnviða hjá Mílu

Í lok árs var ákveðið að búa til öfluga stjórnstöð þar sem allir þættir sem snúa að rekstri fjarskiptakerfa samstæðunnar yrðu vaktaðir á sama stað og í ársbyrjun 2016 var Stjórnstöð Símans flutt til Mílu. Við breytinguna skapast tækifæri til að byggja upp enn öflugri kerfisvöktun fyrir fjarskiptainnviði á landinu. Með yfirfærslu verkefna frá Símanum styrkist og eflist starfsemi Mílu og standa vonir til þess byggð verði upp vöktun fyrir fleiri fjarskipta- og upplýsingatæknifyrirtæki hér á landi.

Hringtenging ljósleiðara á Vestfjörðum

Það kom í hendur Mílu að vinna fyrri hluta hringtengingar stofnleiðar á Vestfjörðum. Framkvæmdir hófust í lok júlí. Orkubú Vestfjarða var samstarfsaðili Mílu í verkefninu og lagði 3ja fasa háspennustreng með ljósleiðaranum frá Borðeyri að Þorpum á Ströndum.

Alls nær strengurinn um 115 km langa leið en verkefninu lauk í byrjun desember. Um er að ræða ljósleiðarastofnstreng frá Stað í Hrútafirði að Hólmavík með viðkomu á nokkrum fjarskiptastöðum og með möguleika á tengingu ljósleiðaraheimtauga.

Allt að 100 Mb/s Ljósnet víða um land

Ljósnetið var eflt enn frekar á árinu 2015. Míla uppfærði Ljósnetskerfi sitt á höfuðborgarsvæðinu og nokkrum þéttbýlisstöðum í nágrenninu með Vigrun. Alls eru um 87 þúsund heimili komin með möguleika á að tengjast uppfærðu kerfi og fá 100 Mb/s nethraða.

Heimili á Akureyri, Egilsstöðum og í Vestmannaeyjum ná nú allt að 70 Mb/s hraða eftir að götuskápar í bæjarfélögunum voru tengdir. Framhald verður á á komandi ári.  Að auki voru settar upp tengingar fyrir Ljósnet á litlum þéttbýliskjörnum víða um land og má þar nefna Gunnarshólma, Njálsbúð, Rif og Þykkvabæ. Örbylgjusamband til Hríseyjar var aukið og þar með hafa eyjaskeggjar sem búa í innan við kílómeters fjarlægð frá tækjahúsi Mílu möguleika á Ljósnetstengingu.

Míla á sinn þátt í því að flestar háhraðatengingar eru á hvern íbúa á Íslandi þegar horft er til Norðurlandanna og Eystrasaltslandanna. Það er svo í höndum þjónustufyrirtækjanna að tengja sína viðskiptavini á 100 Mb/s tengingu Mílu.

10.000 heimili alls, geta nýtt sér Ljósleiðaratengingar Mílu 
129.652 heimili geta nýtt sér Ljósnetstengingar Mílu 
4.370 km er heildarlengd ljósleiðarastofnlagna Mílu

Ljósleiðari til heimila

Míla sagði frá því á árinu að til stæði að ljúka tengingu 30 þúsund heimila á höfuðborgarsvæðinu með ljósleiðaraheimtaug fyrir lok árs 2016. Við þá framk

væmd mun núverandi kerfi nýtast vel, þar sem ljósleiðari liggur að götuskápum í öllum 

Þessar eignir Mílu, þ.e. ljósleiðari í götuskáp ásamt ljósleiðurum og rörum inn á heimili, gerir tengingu Ljósnets með ljósleiðaraenda að hagkvæmum valkosti við áframhaldandi uppbyggingu aðgangsnetsins.hverfum á höfuðborgarsvæðinu. Þar með er aðeins eftir að bæta ljósleiðara við þann stutta spöl sem eftir er að heimilum. Að auki á Míla þegar ljósleiðara og rör tilbúin fyrir lagningu ljósleiðara inn á fjölda heimila á höfuðborgarsvæðinu.

Míla undirritar yfirlýsingu um aðgerðir í loftslagsmálum

Míla var meðal 103ja fyrirtækja og stofnana sem skrifuðu undir yfirlýsingu um aðgerðir í loftslagsmálum í Höfða í nóvember síðastliðnum. Þar með hefur Míla skuldbundið sig til að setja sér markmið og fylgja þeim eftir með aðgerðum sem draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og minnka myndun úrgangs. Auk þess verður árangur mældur og upplýsingum um stöðu mála miðlað reglulega.  

Reykjavíkurborg og Festa, miðstöð um samfélagsábyrgð fyrirtækja efndu til þessa samstarfs og markaði undirskriftin upphaf verkefnisins.

Gleðigangan í vefmyndavélum Mílu

Míla stillti vefmyndavélina sína í miðborginni sérstaklega fyrir árlegu gleðigönguna í miðbænum í ágúst. Vefmyndavélar Mílu hafa gefið þúsundum tækifæri til að upplifa landið. Hvað er að gerast við Tjörnina, Jökulsárlón, Gullfoss já eða við Austurvöll? Það má sjá með aðstoð vefmyndavéla Mílu.Mílusteinar 2014 

Míla er lífæð samskipta

Míla er heildsölufyrirtæki á fjarskiptamarkaði. Kjarnastarfsemi Mílu felst í að byggja upp og reka fjarskiptainnviði á landsvísu sem önnur fjarskiptafyrirtæki tengjast í gegnum mismunandi lausnir.

Hlutverk Mílu er að selja lausnir sínar til fyrirtækja og stofnana sem stunda fjarskiptastarfsemi og felst sérhæfing Mílu m.a. í rekstri og ráðgjöf vegna uppbyggingar fjarskiptakerfa og aðstöðuleigu í tækjarýmum og möstrum.

Míla á og rekur öflugt og fjölþætt fjarskiptakerfi sem byggist upp á tveimur meginkerfum, Stofnneti og Aðgangsneti. Auk þess býður Míla aðstöðuleigu fyrir viðskiptavini sína í tækjarýmum um allt land á um 600 stöðum. Míla leggur mikla áherslu á stöðuga uppbyggingu fjarskiptakerfis síns, auk þess að setja á markað nýjar lausnir til að mæta þörfum markaðarins. Kerfi Mílu eru grunnur að margskonar fjarskiptaþjónustu um allt land og til útlanda hvort sem það eru fjarskipti fyrir almenning, fyrirtæki eða öryggisfjarskipti.

Mannauður

Í lok árs 2014 voru starfsmenn Mílu alls 104 talsins í 102 stöðugildum. Starfsmenn Mílu starfa eftir kjarnagildum Mílu sem eru virðing, forysta og traust, og hafa starfsmenn þessi gildi að leiðarljósi í samskiptum sín á milli og gagnvart viðskiptavinum. Starfsmenn Mílu búa yfir fjölþættri menntun, þekkingu og reynslu, sem nýtist vel við að tryggja örugg samskipti, öfluga þjónustu og ráðgjöf.

Í nóvember 2014 var Jón Ríkharð Kristjánsson ráðinn framkvæmdastjóri Mílu. 

Aðrir stjórnendur Mílu eru Auður Inga Ingvarsdóttir lögfræðingur, Sigrún Hallgrímsdóttir fjármálastjóri, Halldór Guðmundsson Tæknistoð, Daði Sigurðarson Stofnkerfi, Kristinn Ingi Ásgeirsson Aðgangskerfi, Hrund Grétarsdóttir Þjónusta og sala, Ingimar Ólafsson Grunnkerfi og Svanur Baldursson Hýsing.


Rekstur á árinu

Rekstrartekjur Mílu voru alls 6,1 ma.kr. á árinu 2014 miðað við 5,4 ma.kr. árið 2013.  Heildartekjur hækkuðu um 11,7% á milli ára.  Í júní 2013 var virkur hluti Stofnnetsins fluttur frá Símanum til Mílu og í september sama ár voru Aðgangskerfi flutt yfir til Mílu. Tekjur af mánaðargjöldum voru tæpar 5,6 ma.kr. á móti 4,9 ma.kr. árið áður. Lítil breyting hefur verið á tekjum Mílu á því tímabili sem Stofnnet og Aðgangskerfi hafa verið hjá félaginu. 

Rekstrargjöld hækkuðu um 19,8% á milli ára voru 3,2 ma. kr. á árinu 2014. Laun og launatengd gjöld hækkuðu um rúm 42,1% á milli ára. Að stærstum hluta skýrist þetta af fjölgun stöðugilda hjá Mílu. Bæði er um að ræða flutning starfsmanna frá Skiptum og Símanum í kjölfar flutnings Stofnnets og Aðgangskerfa yfir til Mílu og ný stöðugildi til að mæta kröfum Sáttar sem gerð var við Samkeppniseftirlitið. Skrifstofu- og stjórnunarkostnaður lækkaði um 3,1% á milli ára en húsnæðiskostnaður jókst úr 740 m.kr. í 839 m.kr. Eignfærð fjárfesting var tæpar 1.632 m.kr. sem er aukning frá fyrra ári. 

Rekstrarhagnaður fyrir skatta og fjármagnsliði er 1,4 ma.kr., 43 m.kr. lægri en árið áður. Á tímabilinu var hagnaður að fjárhæð 382 m.kr. samanborið við 23,3 m.kr. tap á fyrra ári. EBITDA hlutfallið var 47,2% á móti 50,8% árið áður. 

Ný Ethernetþjónusta í sölu á árinu

Míla tilkynnti viðskiptavinum sínum í apríl 2014 um nýja Ethernetþjónustu sem hefur verið í þróun hjá fyrirtækinu. Um var að ræða stofnlínuþjónustu sem byggir á MPLS-TP tæknibúnaði Mílu. Póst og fjarskiptastofnun heimilaði Mílu svo að hefja sölu á hinni nýju ethernetþjónustu MPLS-TP í júlí 2014. Verðskrá fyrir vöruna er þó enn til umfjöllunar hjá Póst og fjarskiptastofnun og er hún því enn til bráðabirgða.

Ljósveita komin til 118 þúsund heimila

Míla hefur staðið að örri uppbyggingu Ljósveitunnar á landsvísu og í lok árs var búið að tengja 1.172 götuskápa frá því verkefnið hófst. Gátu þá rúmlega 118.000 heimili tengst Ljósveitunni um allt land. Þeir þéttbýlisstaðir sem lokið var við að götuskápavæða á árinu voru Þorlákshöfn, Hveragerði, Selfoss og Reykjanesbær. Þá voru settir upp skápar á Hvolsvelli, Höfn, Blönduósi, Ísafirði og Sauðárkróki. Áhersla var einnig lögð á Akureyri, en þar voru tengdir alls 42 götuskápar. Lokið var við að uppfæra símstöðvar í ljósveituhæfi á þéttbýlisstöðum utan suðvesturhornsins sem eftir stóðu í lok árs 2013. þar má nefna Hólmavík og Borgarfjörð eystri, auk minni kjarna eins og Aratungu, Laugarás, Laugarvatn og Kirkjubæjarklaustur.

Þróun Ljósveitu - Vigrun

Á síðasta ári hófust prófanir á vigrun (e.Vectoring) en það er þróun á núverandi ljósveitukerfi, sem gerir Mílu kleift að allt að tvöfalda ljósveituhraðann, úr 50Mb/s í 100Mb/s til heimila. Þá var hafist handa við að skipta út búnaði í götuskápum fyrir vigrunarhæfan búnað. Í byrjun árs 2015 var vigrunarhæfur búnaður kominn í tæplega 50% af þeim götuskápum sem gera á hæfa fyrir vigrun.

Þjónustuvefur Mílu verðlaunaður

Nýr þjónustuvefur fór í loftið 2013 og í byrjun árs 2014 var vefurinn tilnefndur til íslensku vefverðlaunanna sem besti innri vefurinn. Verðlaunaafhending fór fram 31. janúar og bar þjónustuvefur Mílu sigur úr bítum í þessum flokki. Vefurinn var unnin með Hugsmiðjunni.  Þjónustuvefurinn hefur það hlutverk að auðvelda og einfalda samskipti viðskiptavina við Mílu. Vefurinn er miðlægur staður sem tekur á móti pöntunum frá viðskiptavinum og þar geta þeir fylgst með framgangi sinna pantana. Mikil ánægja hefur verið hjá viðskiptavinum Mílu með nýjan þjónustuvef, og hefur hann verið í stöðugri þróun allt síðasta ár.

Nýr ytri vefur

Snemma á síðasta ári hófst vinna með Hugsmiðjunni við nýjan ytri vef Mílu. Hafist var handa við þarfagreiningu og hugmyndavinnu á fyrri hluta ársins og litu fyrstu drög að nýrri síðu dagsins ljós um mitt ár. Í lok árs var vefurinn nánast tilbúinn og aðeins eftir að leggja lokahönd á efnistök og innsetningu texta. Áætlað er að vefurinn fari í loftið á fyrstu mánuðum árs 2015.

Fjarskiptaklasi

Míla hafði frumkvæði að því að hefja viðræður um klasasamstarf innan fjarskiptageirans. Á fundi fagráðs innanríkisráðherra um fjarskiptamál sem haldinn var þriðjudaginn 21.október var samþykkt að verkefnatillaga frá Mílu, Símanum og Nýsköpunarmiðstöð Íslands fengi brautargengi.  Áætlað var að fyrsti fundur klasans yrði í byrjun nóvember. Það gekk ekki eftir og var fyrsta fundi frestað fram yfir áramót. Fundurinn var haldinn 5.febrúar 2015 þar sem aðilar í fjarskiptageiranum komu saman og hófu viðræður um mikilvæg verkefni og grundvöll innan klasans.  

Veðurfar

Veður voru oft á tíðum váleg 2014 og hafði veðurfar þónokkur áhrif á fjarskiptakerfi Mílu. Á fyrstu mánuðum ársins var mikið um ísingu á fjöllum. Nokkuð var um útföll á örbylgjusamböndum vegna ísingar og þurfti á tímabili að fara vikulega til að brjóta ísingu af búnaði, oft við erfiðar aðstæður.

Möstur hafa fallið í veðurofsa á árinu og þar á meðal eitt í eigu Mílu í Grímsey. Nýtt mastur hefur ekki verið reist í stað þess sem féll, en tvístæða var reist til bráðabirgða.

Í nóvember gekk óveður yfir Vestfirði sem olli rafmagnsleysi á stóru svæði. Varaafl Mílu náði þó að sinna lágmarks fjarskiptaþjónustu á svæðinu, þannig að hvergi varð alveg rafmagnslaust. Þó urðu vandamál með sambönd í Ísafjarðardjúpi, þar sem aðeins er notast við örbylgjur til að koma fjarskiptasambandi til íbúa í Djúpinu. Ekki tókst að halda inni samböndum þar og voru íbúar sambandslausir í nokkurn tíma.

Í lok desember urðu miklir vatnavextir á Snæfellsnesi sem urðu til þess að ljósleiðari rofnaði í miðri Kaldá og varð Snæfellsnes fyrir þónokkru sambandsleysi í nokkra klukkutíma.

Eldgos í Holuhrauni

Neyðarstjórn Mílu virkjaði óvissustig hjá félaginu, vegna eldsumbrotanna í Holuhrauni sem hófust í lok ágúst og hittist neyðarstjórnin reglulega frá því gosið hófst. Fylgst var grannt með framvindu eldgossins og voru fulltrúar Mílu í viðbragðshópi almannavarna. Helsta óvissan fyrir fjarskipti var vegna flóðahættu ef gos skyldi hefjast í Bárðarbungu og þá þurftu fjarskiptakerfin að vera undirbúin fyrir slíkar hamfarir. Unnið var að endurbótum á kerfum og samböndum og undirbúningur vegna flóðahættu á Suðurlandi hefur farið fram.

Vefmyndavélar við Holuhraun

Vefmyndavélar Mílu á Bárðarbungu vöktu mikla athygli en ákveðið var að setja upp vefmyndavélar í aðdraganda eldgossins í Holuhrauni. Fyrri vélinni var komið fyrir rúmlega viku áður en gosið hófst og sást gosið fyrst á vefmyndavél Mílu. Þannig gátu vísindamenn tímasett upphaf eldgossins nákvæmlega. Bæði viðbragðsaðilar og fjölmiðlar hafa vitnað ítrekað í vélarnar í umfjöllunum sínum um gosið og nýttu bæði almannavarnir og veðurstofan vélarnar við rannsóknarvinnu sína. Einnig gátu erlendir aðilar, bæði áhugamenn um eldgos og Ísland fylgst með framvindu mála við Holuhraun í beinni útsendingu um vefmyndavélar Mílu.

Vefmyndavélar Mílu eru hluti af samfélagslegri ábyrgð Mílu. Með því að nýta slíkar vélar til beinna útsendinga frá viðburðum eins og þeim sem áttu sér stað í Holuhrauni þá gerir fyrirtækið samfélaginu kleift að fylgjast með framgangi mála.