30. desember 2020

Uppbygging varaafls á landinu

Allt árið 2020 stóð yfir umfangsmikil vinna við úrbætur á varaafli á alls 68 fjarskiptastöðum á landinu, þar af eru 27 fjarskiptastaðir Mílu.

Um er að ræða verkefni sem Míla og Neyðarlínan settu af stað í byrjun árs 2020. Unnið var að greiningu með fjarskiptafélögunum og síðan var farið í að bæta varaaflið með stuðningi ríkisstjórnarinnar. Óveðrið sem gekk yfir landið í desember í fyrra var kveikjan að verkefninu, en óveðrið olli víðtæku og langvarandi rafmagnsleysi og útfalli á fjarskiptum. Norðurland, Vestfirðir og Austurland urðu verst úti í þessu veðri og var hafist handa við úrbætur á varaafli á þeim stöðum. Í seinni áfanga verkefnisins sem stefnt er á að vinna á næsta ári verða gerðar úrbætur á varaafli á suðurhelmingi landsins frá sunnanverðu Vesturlandi og að syðri hluta Austfjarða.

2020-09-09-11.00.48

Starfsmenn Mílu unnu að greiningu á verkefninu síðastliðinn vetur, þar sem var ákveðið hvaða staðir yrðu fyrir valinu og hvar breytinga væri þörf. Þá hafa starfsmenn Mílu unnið ótalda tíma við hönnun og undirbúning. Ganga þurfti frá leyfismálum, svara sveitafélögum og íbúum og tók verkefnið nokkrum breytingum á meðan á því stóð vegna slíkra mála. Talsvert af breytingum þurfti að gera á fjarskiptastöðunum til þess að hægt væri að taka við rafstöðum og setja upp tengla fyrir færanlegar stöðvar. Á nær öllum stöðum hafa rafmagnstöflur verið uppfærðar og þá hafa starfsmenn Mílu ferðast um allt Norðurland til að bæta við rafgeymum. Einnig hafa starfsmenn Mílu unnið þétt á móti starfsfólki Neyðarlínu og verktökum svo allt gengi sem skildi. Þá hefur þurft að tengja og prófa rafstöðvarnar, setja þær í vöktun og koma á reglulegum prófunum. Að lokum var bætt við nýjum fjarskiptastað á Ólafsfirði, en þar er nú nýtt 30 metra mastur, nýtt tækjahús og ný rafstöð.

Samhliða varaafls uppbyggingu hefur verið unnið að því að tengja fjarskiptastaði með ljósleiðara til að leysa af hólmi örbylgjusambönd, en búnaður fyrir slík sambönd þola síður veðurofsa en lagnir í jörðu. Tilgangur verkefnisins er að tryggja fjarskiptaöryggi í óveðrum, með því að til staðar sé varaafl og nægt rafmagn til að halda uppi fjarskiptum þegar hamfaraveður ganga yfir landið.