24. febrúar 2021

Þrettán rafstöðvar til björgunarsveitanna

Björgunarsveitir Slysavarnarfélagsins Landsbjargar hafa fengið til notkunar nýjar færanlegar rafstöðvar. Er þetta liður í stærra verkefni sem miðar að því að efla rekstraröryggi fjarskipta á landinu.

Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitastjórnaráðherra afhenti á dögunum fulltrúum þrettán björgunarsveita Slysavarnarfélagsins Landsbjargar nýjar færanlegar rafstöðvar við athöfn í húsakynnum Neyðarlínunnar á Hólmsheiði. Er þetta liður í því að efla rekstraröryggi fjarskipta á landinu ef til langvarandi rafmagnsleysis kemur svo sem þegar óveður geysa, eins og var raunin í lok árs 2019. Færanlegu rafstöðvarnar munu m.a. vera til taks fyrir fjölmarga fjarskiptastaði Mílu sem búið er að útbúa með tenglum svo hægt sé með einföldum hætti að koma á viðbótar varaafli þegar á reynir.

Aðkoma björgunarsveita er ómetanleg í erfiðum aðstæðum eins og þeim sem sköpuðust í umræddu óveðri. Með því að staðsetja þennan tækjabúnað hjá björgunarsveitum landsins er þeim gert kleift að bregðast hratt við til að koma rafmagni aftur á  þegar neyðarástand skapast vegna langvarandi rafmagnsleysis.

 

Varaaflsverkefnið

Í byrjun síðasta árs fóru Neyðarlínan og Míla, í samstarfi við helstu fjarskiptafélög af stað með umfangsmikið verkefni sem unnið var með stuðningi stjórnvalda, til að bæta fjarskiptaöryggi á landinu í langvarandi rafmagnsleysi. Í fyrsta áfanga verkefnisins voru úrbætur gerðar á 68 fjarskiptastöðum einkum á Vestfjörðum, Norðurlandi og Austurlandi. Úrbætur sem gerðar voru á síðasta ári fólust í því að settar voru upp 32 nýjar fastar vararafstöðvar, bætt var við rafgeymum á tíu lykil fjarskiptastöðum og tenglar fyrir færanlegar rafstöðvar settir upp á 26 stöðum, auk annarra endurbóta. Í öðrum áfanga sem unninn verður á þessu ári verður unnið að úrbótum á fjarskiptastöðum á Suðurlandi, Vesturlandi og suðvesturhorninu.


Rekstraröryggi fjarskipta er mikilvægt samfélagslegt verkefni. Með færanlegum rafstöðvum björgunarsveitanna verður öryggisnet fjarskipta þétt enn frekar. 
Þetta vefsvæði byggir á Eplica