25. janúar 2022

Þjóðaröryggi - Samningur Ríkisins og Mílu

Míla hefur gert samkomulag við Ríkið um kvaðir vegna þjóðhagslega mikilvægra fjarskiptaneta Mílu. Þar með er staðfest að fjarskiptainnviðir Mílu uppfylla kröfur ríkisins um þjóðaröryggi og má segja að kerfi Mílu séu öruggustu fjarskiptakerfi landsins. 

  • Jorfi-loftmynd_dron_2_1612454984987

Þegar tilkynnt var um sölu Símans á Mílu til franska fjárfestingafélagsins Ardian France SA í lok síðasta árs, komu meðal annars upp vangaveltur um möguleg áhrif á þjóðaröryggi, þar sem fjarskiptainnviðir Mílu teldust til samfélagslega mikilvægra innviða. Ríkið óskaði þá eftir viðræðum við fulltrúa Mílu, Símans og Ardian um leiðir til að tryggja að starfsemi Mílu samrýmist þjóðaröryggishagsmunum í nýju eignarhaldi erlendra aðila. Fór Samgöngu- og sveitastjórnarráðuneytið fyrir þeim viðræðum fyrir hönd ríkisins.

Er þeim viðræðum nú lokið og fyrir liggur undirritaður samningur milli Vísinda-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytis sem fer með málaflokkinn í nýrri ríkisstjórn, og Mílu um kvaðir sem félagið tekur á sig vegna þjóðhagslega mikilvægra fjarskiptaneta Mílu. Ríkisstjórnin hefur staðfest samninginn. Með þjóðhagslega mikilvægum fjarskiptanetum er átt við ákveðna hluta fjarskiptaneta Mílu sem teljast mikilvægir út frá almannahagsmunum og þjóðaröryggi og þann vél- og hugbúnað sem nauðsynlegur er til reksturs og virkni þeirra. Stjórnvöld meta þetta svo að til þess að hægt sé að tryggja aðgengileika og samfellda virkni á þessum mikilvægu netum, þá verði þau að vera í íslenskri lögsögu

Þar með er það staðfest að fjarskiptakerfi Mílu uppfylla kröfur ríkisins um þjóðaröryggi, héðan í frá sem hingað til, en Míla hefur ávallt starfað samkvæmt ströngum reglum hins opinbera hvort sem það eru reglur Fjarskiptastofu eða Fjarskiptalög. Nýr samningur hefur því ekki frekari íþyngjandi áhrif á Mílu en verið hefur.

Öryggi fjarskipta hefur alltaf verið forgangsmál hjá Mílu. Þar má nefna að Míla hefur hlotið vottun BSI samkvæmt ISO/IEC 27001 sem snýr að upplýsingaöryggi og starfar samkvæmt virkri upplýsingaöryggisstefnu sem hefur það meginmarkmið að veita viðskiptavinum Mílu örugga og trausta þjónustu.
Þetta vefsvæði byggir á Eplica