18. mars 2016

Samkomulag um ljósleiðara á Vestfjörðum

Míla og Neyðarlínan hafa gert með sér samkomulag um lagningu ljósleiðara í seinni áfanga hringtengingar á Vestfjörðum

Vegna samnings Neyðarlínunnar við fjarskiptasjóð um lagningu ljósleiðara á Vestfjörðum óskaði Neyðarlínan eftir samstarfi við Mílu um framkvæmd verkefnisins. 
Míla mun aðstoða Neyðarlínuna og leggja verkefninu til ráðgjöf og þekkingu.  Mikilvægt er fyrir báða aðila að verkefnið verði klárað á þessu ári og að það sé unnið af fagmennsku. 

„Fyrir uppbyggingu Neyðarlínunnar á öryggisfjarskiptum er mikilvægt að hringtenging Vestfjarða klárist og því tók Neyðarlínan verkefnið að sér. Við leituðum til Mílu af því að vitum að þar er þekking og reynsla sem þarf til að leysa svona verkefni vel og félögin hafa átt gott samstarf um uppbyggingu fjarskiptainnviða víða um land " segir Þórhallur Ólafsson framkvæmdastjóri Neyðarlínunnar. 

„Míla á og rekur helstu fjarskiptainnviði á Vestfjörðum sem nýr ljósleiðari tengist og fyrir öryggi fjarskipta er þetta mikilvægt verkefni.  Míla lagði um 120km á síðasta ári í fyrri hluta hringtengingar Vestfjarða og sömuleiðis á Míla nú þegar ljósleiðara á um helmingi þeirrar leiðar sem eftir er.  Míla vill leggja sitt af mörkum til að verkefnið klárist þó fyrirtækið sé ekki tilbúið að taka á sig meiri kostnað eða áhættu vegna hringtengingar Vestfjarða.

Samstarf Mílu við Neyðarlínuna er gott og því uppfyllir þessi leið okkar markmið og hentar vel“ segir Jón Ríkharð Kristjánsson framkvæmdastjóri Mílu.