14. desember 2021

Míla - salan og áhrif hennar á fyrirtækið

Jón R. Kristjánsson framkvæmdastjóri Mílu var í viðtali í Markaðnum á Hringbraut í síðustu viku. Þar var meðal annars rætt um Mílu, söluna á félaginu og hin ýmsu álitamál sem komið hafa upp í kringum hana.

 

Síðustu vikur hefur fyrirtækið verið mikið í umræðunni vegna fyrirhugaðrar sölu á fyrirtækinu til franska fjárfestingafélagsins Ardian. Míla hefur ekki blandað sér mikið í umræðuna um söluna enda er fyrirtækið „söluvaran“ og ekki í valdi þess að hafa áhrif á söluna. 

Tækifæri sem felast í sölunni

Jón var spurður út í það hvaða tækifæri felast í sölunni fyrir Mílu. Þar nefnir hann helst þau tækifæri sem felast í því að fyrirtækið verði sjálfstætt og óháð innviðafélag sem býður fjarskiptaþjónustu fyrir markaðinn í heild. Við það geti skapast tækifæri fyrir betri nýtingu á innviðum í eigu Mílu ef aukinn vilji verður hjá fjarskiptafélögunum að nýta þessa innviði. „Míla þjónustar öll fjarskiptafélögin sem bjóða þjónustu til endanotenda, en það hefur mögulega truflað suma á markaði að Míla sé í eigu stærsta samkeppnisaðila þeirra“ segir Jón.

þá telur Jón tækifæri felast í því að vera ekki lengur hluti af Símasamstæðunni sem skráðu félagi á markað og þar með ekki lengur bundið ákveðnum fjárfestingaramma sem Míla hefur þurft að starfa innan, óháð fjárfestingaþörf hverju sinni. „Við höfum viljað fjárfesta hraðar í ljósleiðaravæðingunni og nú hefur 5G uppbygging bæst við. Þetta eru verkefni sem er betra að vinna hratt og ekki dreifa yfir of langan tíma. Ardian hefur gefið í skyn vilja til að flýta þessum fjárfestingum sem er aukið tækifæri fyrir okkur að geta klárað þessi mikilvægu verkefni hraðar“.

Það væri alltaf betra fyrir Mílu að vera sjálfstætt og óháð innviðafyrirtæki, sama hver eigandinn er. Samkeppnisumhverfið verður heilbrigðara ef stærsta innviðafyrirtækið er ekki í eigu fjarskiptafyrirtækis á markaði, eins og Símans. Ardian er góður kostur, þar er mikil þekking og reynsla af langtíma fjárfestingum og fjárfestingum í innviðum. „Það er einmitt eðli fjárfestinga okkar, en Míla fjárfestir ávallt til langs tíma, yfirleitt til 30-40 ára“.

Áhyggjur sem viðraðar hafa verið vegna sölunnar á Mílu

Umræða um þjóðaröryggi hefur verið hávær í kringum söluna á Mílu. Jón telur að ekki þurfi að hafa áhyggjur af því. Það verður gert samkomulag milli Ardian og Ríkisins um þá þætti sem geta talist til þjóðaröryggis, svo sem að mikilvægur fjarskiptabúnaður verði ekki fluttur úr landi. Enda verður þessi búnaður ekki hreyfður svo auðveldlega. „Það verða gerðar kröfur til Mílu sem við munum uppfylla og fela í raun í sér að við höldum áfram að gera hlutina eins og við höfum gert þá hingað til“ segir Jón.

Mögulegar verðhækkanir er annað áhyggjuefni sem hefur verið viðrað í kringum söluna á Mílu. Til að svara því útskýrir Jón eðli markaðarins. Það er töluverð samkeppni á fjarskiptamarkaði og þar stýrir samkeppnin verðinu. Míla er í harðri samkeppni t.d. á markaði fyrir ljósleiðara til heimila. Flest heimili á landinu hafa ljósleiðara í eigu annarra tengdan samhliða ljósleiðara Mílu. Þar þarf Míla því að keppa við aðra um að ná viðskiptum til sín. Á þeim hlutum markaðarins þar sem er engin samkeppni og þar með aðeins einn aðili sem veitir þjónustu, yfirleitt Míla, þá grípur regluverkið þann bolta. Þar er það fjarskiptalöggjöfin sem skilgreinir nákvæmlega hvað má innheimta fyrir hverja þjónustu og hvaða ávöxtun má hafa af fjárfestingum og svo framvegis. Það eru því ekki hætta á að verð hækki umfram það sem annars hefði orðið. Samkeppnislögmál og fjarskiptalöggjöfin sjá til þess.

Eftirlitsaðilar hafa talað fyrir því að Míla og Síminn slíti samstarfi sínu og að Míla verði óháð markaðsaðilum svo samkeppnisstaða allra félaga sem eru að selja fjarskiptaþjónustu til endanotenda verði jöfn. Þess vegna er sala Símans á Mílu til óháðra aðila góð fyrir heilbrigða samkeppni á fjarskiptamarkaði. Hver sá óháði aðili er, á ekki að skipta máli. 

Hér má sjá viðtalið á Hringbraut  
Þetta vefsvæði byggir á Eplica