12. desember 2019

Rekstur grunnfjarskiptakerfa í óveðri

Rekstur stofnfjarskiptakerfa Mílu gekk vel í því mikla óveðri sem gekk yfir landið undanfarna 2 sólarhringa. Rekstrartruflanir sem urðu má allar rekja til rafmagnsleysis og veðurs. Áhersla er á að koma rafstöðvum á staði sem eru án rafmagns. 

Rekstur stofnfjarskiptakerfa Mílu gekk vel í því mikla óveðri sem gekk yfir landið undanfarna 2 sólarhringa. Stofnfjarskipti á alla þéttbýlisstaði og útlandasambönd sem fara um óveðurssvæðin hafa gengið án truflana. Það er undirstaða þess að víðast tókst að halda mikilvægum fjarskiptum gangandi í erfiðum aðstæðum.

Engar stórar bilanir hafa orðið sem tengjast óveðrinu. Rekstrartruflanir má allar rekja til rafmagnsleysis annars vegar og veðurs hins vegar. Við langvarandi rafmagnsleysi reynir verulegar á varaafl í tækjahúsum Mílu. Tækjahús Mílu bera annars vegar grunnfjarskipti Íslands í þéttbýlum auk hnútpunkta í fjarskiptakerfinu, sem eru undirlag annarra fjarskiptafyrirtækja og tengingar við útlönd og hins vegar eru það minni tækjahús, símstöðvar og sendastaðir í dreifbýli og til fjalla. Einnig getur veður haft áhrif á fjarskiptasambönd í lofti (örbylgjur) vegna mikillar ísingar á möstrum og á loftnetum.

Áhersla Mílu hefur fyrst og fremst verið að halda rafmagni á stöðum sem sinna stofnfjarskiptum, sem eru grunnfjarskiptakerfi landsins, því útföll á þessum stöðum geta haft mjög víðtæk áhrif. Mikið hefur verið lagt í að tryggja raforku á þessa staði og með ómetanlegri aðstoð viðbragðsaðila, fjarskiptafélaganna og veitufyrirtækja hefur þetta hingað til gengið vel. Þannig hafa stofnfjarskipti á alla þéttbýlisstaði og útlandasambönd sem fara um óveðurssvæði gengið án truflana. Þá er einnig verið að sinna öðrum stöðum eftir fremsta megni.

Eins og staðan er núna er búið að koma vararafstöðvum í gang á mikilvægum stöðum og þéttbýlum. Starfsmenn Mílu fóru af stað í gær með rafstöðvar, eldsneyti og varahluti í vinnu á Norðurlandi ásamt samstarfsaðilum sem eru á fleiri stöðum. Þá fóru fleiri teymi af stað norður í dag. Áhersla verður lögð á að koma rafstöðvum á nokkra staði sem eru án rafmagns, auk þess að styrkja grunnfjarskiptakerfið enn frekar með fleiri rafstöðvum sem nú ganga á rafgeymum.

Ástand veiturafmagns hefur batnað mikið víða á Norðvesturlandi þó enn séu margir staðir án rafmagns. Staðan á Norðausturlandi er ennþá erfið og menn frá Mílu komnir þangað með rafstöðvar til að tryggja rafmagn fyrir grunnfjarskipti þar.

Míla gerir ráð fyrir að þurfa áfram að tryggja fjarskiptastöðum rafmagn með rafgeymum og rafstöðvum næstu daga og mun aðlaga sínar aðgerðir í samræmi við upplýsingar veitufyrirtækja á svæðinu. 
Þetta vefsvæði byggir á Eplica