8. maí 2023

Nýtt flutningskerfi fjarskipta umhverfis landið - Aukin flutningsgeta

Fyrsta áfanga í uppbyggingu á nýju flutningskerfi fjarskipta umhverfis landið er nú lokið. Um er að ræða bylgjulengdarkerfi, sem flytur ljósbylgjur og er flutningsgeta hverrar bylgju um 400 Gbit á sekúndu. 

Míla hefur lokið við fyrsta áfanga í uppbyggingu á nýju flutningskerfi fjarskipta umhverfis landið. Verkið var unnið í góðu samstarfi Mílu og Farice ehf. Hefur kerfið þegar verið tekið í notkun og kemur í stað eldra kerfis sem þjónað hefur sem burðarnet fjarskipta Íslendinga um áratuga skeið. Um er að ræða fjarskiptakerfi sem liggur umhverfis Ísland meðfram strandlengjunni auk leiðar þvert yfir hálendið um Kjöl. Tilgangur kerfisins er að flytja fjarskiptaumferð milli landshluta, annast tengingar milli staða innanlands og flytja innanlandshluta útlandasambanda sem tengjast FARICE-1 fjarskiptasæstrengnum. Með þessu eykst öryggi útlandasambanda milli Íslands og Evrópu með fjölgun varaleiða og aukinni afkastagetu á flutningsleiðum hérlendis. FARICE-1 er fyrsti fjarskiptasæstrengur Farice ehf. og liggur hann frá Seyðisfirði til Skotlands.

Kerfið flytur ljósbylgjur milli staða og getur hver bylgja flutt allt að 400Gbit á sekúndu sem er ígildi meðal netnotkunar u.þ.b. 60 þúsund heimila. Hámarks flutningsgeta kerfisins á núverandi tækni er allt að 25 Terabit (25.000 Gbit) svo fyrirséð er að kerfið muni þjóna þörfum landsmanna vel um ókomna tíð. Ný hálendisleið eykur öryggi fjarskipta margfalt með tilkomu fleiri og styttri leiða milli staða. Ef slit verða á landshring þá hafa þau minni áhrif auk þess sem samtímaslit á tveimur stöðum eru ólíklegri til þess að valda vandamálum.

Þetta nýja flutningskerfi styður uppbyggingu á 4G/5G farsímasendum um allt land og ljósleiðaravæðingu fyrir heimili og fyrirtæki og tryggir nægan hraða og afköst til þess að veita háhraða fjarskiptaþjónustu um allt land. Kerfið er opið og geta öll fjarskiptafélög sem bjóða þjónustu á Íslandi nýtt sér þetta kerfi.