25. september 2020

Ný hálendisleið - aukið öryggi fjarskipta

Framkvæmdir eru hafnar við lokaáfanga lagningar ljósleiðara yfir hálendi Íslands. Ný hálendisleið verður mikilvæg viðbót fyrir fjarskiptaöryggi landsins.

Míla hefur hafið framkvæmdir við lokaáfanga lagningar ljósleiðara yfir hálendi Íslands, frá Hveravöllum að Steinsstöðum í Skagafirði, alls um 83ja kílómetra leið. Framkvæmdir við þennan lokaáfanga hófust nú í ágúst og er áætlað að framkvæmdum ljúki fyrir lok október. Á meðfylgjandi mynd er verið að koma ljósleiðaranum yfir Blöndu, en þvera þarf nokkrar ár, bæði stórar og litlar á leiðinni yfir hálendið. 

Hálendisleið eykur fjarskiptaöryggi

Landshringur Mílu hefur verið undirstaða tvítenginga mikilvægra fjarskiptastaða á Íslandi í rúm 30 ár. Landshringurinn er ljósleiðarstofnleið sem líkja má við þjóðveg 1, en um hann fara öll helstu fjarskipti innanlands og fjarskipti til og frá landinu á einn eða annan hátt. Ný hálendisleið er hrein viðbót við Landshringinn og mun auka öryggi fjarskipta, sérstaklega úti á landi.

Ný leið yfir hálendið mun fjölga valkostum til tvítenginga verulega. Hægt verður að búa til minni, heildstæða hringi sem nýtast til að tryggja öryggi meira svæðisbundið en nú er. Í stað þess að tvítengingar þurfi að fara hringinn í kringum landið verður hægt að tryggja öryggi með styttri hringtenginu og stóra og mikilvæga staði verður hægt að þrítengja. Hálendisleiðin mun opna nýja valkosti fyrir flutning útlandatenginga, bæði fyrir tengingar frá Landeyjarsandi og Seyðisfirði. Um leið opnast nýir möguleikar fyrir uppbyggingu gagnavera víða um land.

Samfélagslega mikilvægt

Aukið öryggi fjarskipta er samfélagslega mikilvægt verkefni. Í því skiptir tvennt mestu máli, öryggi rafmagns eða varaafls og öryggi fjarskiptatenginga. Öryggi tenginga byggir á því að til staðar sé tvítenging um landið því fjarskiptakerfin eru heildstæð og uppruni þjónustunnar er á höfuðborgarsvæðinu. Því er mikilvægt ef ein leið dettur út, t.d. vegna slits á streng, að til staðar sé önnur leið eða tenging. Þetta er mikilvægt bæði fyrir fjarskipti innanlands og að sjálfsögðu fyrir tengingar á landtökustaði sæstrengja sem tengja landið við útlönd. Með nýrri leið yfir hálendið verða til stofnleiðir sem liggja í áttu. Það fjölgar valkostum til tvítenginga fjarskipta verulega og eykur þannig öryggi fjarskipta á landinu öllu. Í stað þess að tvítenging þurfi að fara hringinn um landið, þá verður hægt að tryggja öryggi með leiðinni yfir hálendið. Þá verður einnig hægt að þrítengja mikilvæga staði með nýrri leið.

Ljósleiðaraverkefni síðustu ára

Undanfarin ár hefur mikil áhersla verið á lagningu ljósleiðara um allt land. Vestfirðir og Snæfellsnes voru hringtengdir ljósleiðara 2016 og 2017 og þar með var öryggi fjarskipta aukið á þeim svæðum. Verkefni Ríkisins, Ísland ljóstengt sem hófst árið 2016 hefur stutt við tengingu heimila í dreifbýli á ljósleiðara og einnig hafa erfiðir fjarskiptastaðir víða um land verið tengdir ljósleiðara. Allt er þetta gert með það að markmiði að auka öryggi fjarskipta á landinu. Ný hálendisleið verður mikilvæg viðbót fyrir fjarskiptaöryggi landsins.

 
Þetta vefsvæði byggir á Eplica