14. febrúar 2020

Neyðarstjórn Mílu sjaldan verið virkari

Neyðarstjórn Mílu hefur sjaldan verið virkari en síðustu tvo mánuði, vegna þeirra óveðurshrina sem gengið hafa yfir landið reglulega frá því í desember og vegna jarðhræringa á Reykjanesi. 

Þann 10. desember gekk eitt mesta óveður sem komið hefur í áraraðir yfir norðanvert landið sem olli miklu útfalli á rafmagni. Mikið og langvarandi útfall á rafmagni hefur óhjákvæmilega áhrif á fjarskipti, þar sem búnaður vegna fjarskipta þarf rafmagnsfæðingu til að ganga. Reyndi mikið á varaaflskerfi Mílu í þessu óveðri og stóð það álagið nokkuð vel af sér. Viðbragðsáætlun Mílu var virkjuð og hittist Neyðarstjórn Mílu að jafnaði tvisvar á dag á meðan veðrið gekk yfir og næstu daga á eftir á meðan unnið var úr eftirmálum veðursins.

6. janúar gekk önnur óveðurshrina yfir landið og stóð það yfir í nokkra daga. Að þessu sinni var versta veðrið um sunnan og vestanvert landið. Veðrið olli ekki eins miklum usla og veðrið í desember, en þó var nokkuð um útfall á rafmagni, meðal annars vegna seltu og ísingar. Aftur var viðbragðsáætlun Mílu virkjuð og hittist neyðarstjórn daglega til að fara yfir stöðu fjarskiptakerfa Mílu á meðan á veðrinu stóð og næstu daga á eftir.

Jarðhræringar á Reykjanesi kölluðu aftur á nauðsyn þess að neyðarstjórn Mílu kæmi saman. Farið var yfir stöðu mála á kerfum Mílu ef til eldgoss kæmi. Neyðarstjórn Mílu hefur töluverða reynslu í undirbúningi vegna eldgosa, sem voru tíð á árunum 2010 – 2015 og Míla því vel í stakk búin til að bregðast við. Fyrirtækið hefur verið í viðbragðsstöðu síðan 28. janúar þegar fyrst varð vart við jarðhræringar á svæðinu. Fylgst er með gangi mála og unnið að fyrirbyggjandi aðgerðum til að minnka áhrif ef hraungos hefst á þessu svæði. Um leið var fundað vegna yfirvofandi faraldurs vegna Korona veirunnar og farið yfir viðbragðsáætlun fyrirtækisins ef faraldurinn skyldi ná hingað til lands.

Síðasti fundur neyðarstjórnar var í gær fimmtudaginn 13. febrúar vegna óveðurs sem nú gengur yfir landið. Eins og áður hefur viðbragðsáætlun verið virkjuð og Míla viðbúin þeim áhrifum sem veðrið getur haft á fjarskiptin.

Langt er síðan mætt hefur þetta mikið á neyðarstjórn Mílu og var það síðast í stóru eldgosunum í Eyjafjallajökli árið 2010 og í Bárðarbungu 2014 sem fundir neyðarstjórnar voru svo örir. Neyðarstjórn Mílu hefur því hlutverki að gegna að samhæfa og stýra aðgerðum Mílu þegar neyðarástand er yfirvofandi. Í stjórninni sitja lykilstarfsmenn og stjórnendur sem hafa yfir að ráða þekkingu og auðlindum sem til þarf þegar bregðast þarf hratt við yfirvofandi vá. Fylgt er viðbragði Almannavarna ríkisins þegar ákveðið er hver viðbragðsstaða Mílu er hverju sinni.