9. febrúar 2022

Míla og Ericsson undirrita samstarfssamning

Míla og sænska fjarskiptafyrirtækið Ericsson hafa undirritað samstarfssamning um uppbyggingu og rekstur farsímadreifikerfis Mílu. 

Míla og sænska fjarskiptafyrirtækið Ericsson hafa undirritað samstarfssamning um áframhaldandi uppbyggingu og rekstur farsímadreifikerfis Mílu. Samningurinn snýr að farsímasendum og bakendakerfum fyrir farsímadreifikerfi Mílu á landsvísu.

Mikil uppbygging er framundan í farsímadreifikerfinu en samhliða frekari þéttingu á 4G kerfinu á landsvísu er uppbygging á 5G, nýjustu kynslóðar farsímakerfa um allt land stærsta verkefnið og tryggir nýr samningur meðal annars enn hraðari uppbyggingu þeirra. Uppbygging 5G farsímakerfis er þegar í fullum gangi. Á síðasta ári setti Míla upp alls 31 5G sendastaði, flesta á höfuðborgarsvæðinu, en einnig voru settir upp sendar í Þorlákshöfn, á Egilsstöðum, á Blönduósi og á Seyðishólum. Á þessu ári er gert ráð fyrir að settir verði upp 40 - 50 nýir 5G sendar víða um land.

Fyrir rúmu ári keypti Míla farsímadreifikerfi Símans og á nú og rekur net farsímasenda um allt land, á 2G, 3G, 4G og 5G. Í árslok var Míla með farsímasenda á í kringum 650 stöðum á landinu sem er umfangsmesta farsímadreifikerfi landsins. Farsímasendakerfi Mílu er byggt á búnaði og þjónustu frá fjarskiptafyrirtækinu Ericsson, sem er leiðandi aðili í framleiðslu 5G farsímakerfa í heiminum og sérhæfir sig í uppbyggingu og þjónustu við farsímadreifikerfi.

Míla hefur átt í góðu samstarfi við Ericsson um árabil meðal annars við uppbyggingu og rekstur örbylgjukerfa og nú bætist farsímasendakerfi Mílu við. Með þessum nýja samningi er áframhaldandi samstarf við Ericsson vegna uppbyggingar og reksturs farsímasendakerfanna sem áður voru í eigu Símans tryggt, nú þegar Míla hefur tekið við rekstri þessara kerfa.