18. desember 2017

Míla býður þjónustu um ljósleiðara í dreifbýli Snæfellsbæjar

Staðið hefur yfir vinna við uppbyggingu ljósleiðarakerfis í dreifbýli sveitarfélagsins Snæfellsbæjar. Um er að ræða svæði á sunnanverðu Snæfellsnesi. 

Staðið hefur yfir vinna við uppbyggingu ljósleiðarakerfis í dreifbýli sveitarfélagsins Snæfellsbæjar. Framkvæmdin er á vegum sveitarfélagsins en um er að ræða svæði á sunnanverðu Snæfellsnesi. Geta íbúar sem búið er að tengja nú pantað þjónustu um ljósleiðarann hjá sínu fjarskiptafyrirtæki. Míla hefur sett upp búnað til að geta boðið þjónustu yfir kerfið, en öll fjarskiptafyrirtæki geta boðið þjónustu sína yfir net Mílu.

Alls eru það 115 staðir, heimili, fyrirtæki og stofnanir á sunnanverðu Snæfellsnesi sem geta fengið ljósleiðaratengingu þegar verkinu er lokið. Nú geta 77 heimili af þessum 115 pantað þjónustu.

Verkefnið er unnið í tengslum við verkefni ríkisins, Ísland ljóstengt sem veitir sveitarfélögum styrk til ljósleiðaravæðingar í dreifbýli. Styrkur ríkisins nær þó aðeins til tengingar lögbýla, fyrirtækja og stofnana en þó er kerfið þannig uppbyggt að gert er ráð fyrir að aðrir notendur á svæðinu sem ekki teljast til lögbýla, s.s. sumarhúsaeigendur geti tengst inn á kerfið síðar og bera þeir þá sjálfir kostnað við tenginguna.  

Með tilkomu ljósleiðarans í Snæfellsbæ fá notendur nú 100 Mb/s internethraða í báðar áttir. Þá er bandbreiddin það mikil að það hefur engin áhrif á gæði sambandsins þó allt sé í gangi í einu;  margar sjónvarpsrásir, Netflix, hlustað á tónlist, vafrað á netinu eða unnið heima yfir netið. Bandbreiddin er meira en nóg til að svara öllum þörfum nútímaheimila fyrir internethraða auk þess sem auðvelt verður að auka hraða tenginga síðar. 

Gistiheimilið Langaholti varð fyrst til að tengjast nýja ljósleiðaranum og var meðfylgjandi mynd tekin við það tilefni. Frá vinstri: Kristinn Jónasson bæjarstjóri Snæfellsbæjar, Þorkell Símonarson eigandi gistihússins, Guðmundur Hreiðarson og Magnús Guðmundsson frá Telnet samstarfsaðila Mílu á Vesturlandi.