Ljósleiðari Mílu til heimila á Húsavík

22.11.2019

Í þessum fyrsta áfanga er áætlað að tengja 320 heimili og stefnt er á að klára lagningu til allra heimila á Húsavík næstu 2 - 3 árin

Frá því í byrjun ágúst hafa staðið yfir framkvæmdir við lagningu ljósleiðara til heimila á Húsavík. Í þessum fyrsta áfanga er áætlað að ljúka lagningu til 320 heimila, en það fer þó eftir því hvernig tíðin verður hversu mikið tekst að klára. Nú þegar hafa heimili við Garðarsbraut 67 – 83 möguleika á að tengjast ljósleiðara Mílu og áætlað er að heimili við Árgötu, Ásgarðsveg, Mararbraut, Skólagarð og Túngötu, auk fleiri heimilisfanga við Garðarsbraut verði komin með tengingu í desember. Stefnt er á að klára lagningu til allra heimila á Húsavík á næstu 2 – 3 árum.

Míla á mikið af lögnum og rörum inn í hús víða um land og þar með á Húsavík. Á árunum 1996-1997 voru lögð rör fyrir nýtt koparkerfi og breiðband inn í öll hús í þéttbýli Húsavíkur. Þá var ljósleiðari lagður inn í flest hverfi á Húsavík þegar Ljósnet Mílu var byggt upp í bænum fyrir nokkrum árum. Allir þessir innviðir nýtast nú við lagningu ljósleiðara alla leið til heimila og verður um leið til þess að ekki þarf að fara í eins miklar jarðvegsframkvæmdir sem minnkar rask fyrir íbúa.

Samkvæmt opinberum kvöðum sem á Mílu hvíla er fyrirtækinu skylt að veita öðrum sem þess óska aðgang, bæði að framkvæmdum og fyrirliggjandi innviðum, svo sem rörum ofl. Tengir óskaði eftir slíkum aðgangi á Húsavík og er það forsendan fyrir samstarfi félaganna á Húsavík. Á Húsavík sér Míla því alfarið um alla hönnun og framkvæmdir og leggur ljósleiðarastrengi fyrir bæði félögin í sömu framkvæmd. Þar sem Míla á fyrir ljósleiðara þarf fyrirtækið ekki að fara í lagningu ljósleiðara og þar er því ekki forsenda fyrir samstarfi.  Tengir hefur engu að síður aðgang að rörum Mílu í samræmi við hina opinberu kvöð, en sér þá í þeim tilfellum um eigin framkvæmd.

Verkumsjón

Kristján Stefán Halldórsson (Hljóðverk) er samstarfsaðili Mílu á Húsavík og hefur hann umsjón með framkvæmdinni.  Kristján hefur verið samstarfsaðili Mílu allt frá árinu 2007, en hann var áður starfsmaður Landsíma Íslands.  Hann tók meðal annars þátt í framkvæmdum við lagningu innviða 1996-1997 og þá tók hann þátt í uppbyggingu Ljósnets Mílu á Húsavík.  Kristján gjörþekkir því kerfi og innviði Mílu og er framkvæmdin í traustum höndum.

Innanhússlagnir:

Lagning Ljósleiðara Mílu að inntaki húsa er íbúum að kostnaðarlausu. Þegar inn er komið eru lagnir innanhúss eign og á ábyrgð húseiganda sem stendur straum af kostnaði við lagningu innanhúss hjá sér.

Míla bíður þjónustu við lagningu innanhússlagna og er innifalið í verðinu tenging allt að þriggja tækja. Innanhússlagnir í fjölbýli kosta kr. 24.000 m. vsk á hverja íbúð og sérbýli kr. 15.000 m/vsk.

Míla mun halda áfram lagningu ljósleiðara til heimila í þéttbýli um allt land næstu árin. Verkefnið er umfangsmikið og mun taka tíma að ljósleiðaravæða allt þéttbýli landsins.