5. júlí 2018

Ljósleiðari Mílu í Reykanesbæ

Síðar í sumar verður opnað fyrir pantanir á ljósleiðaratengingum fyrir um 1000 heimili í Reykjanesbæ sem eru með rör frá Mílu inn í hús.

Míla á fjölda röralagna inn í hús í Reykjanesbæ sem verða nýttar til að ljósleiðaravæða  heimilin. Í lok sumars verður opnað fyrir pantanir á ljósleiðaratengingum fyrir um 1000 heimili í Reykjanesbæ sem eru með rör frá Mílu inn í hús. Hægt er að sjá hvaða heimilisföng þetta eru inni á heimasíðu Mílu hér .  Ekki þarf að fara í neinar jarðvegsframkvæmdir á lóðum húseigenda, heldur á aðeins eftir að koma ljósleiðaraþræðinum fyrir í rörum og tengja. Því fylgir lítið rask. Þá hefur Míla hafið framkvæmdir við lagningu ljósleiðara á Ásbrú og er áætlað að fyrsta áfanga í því verkefni verði lokið í sumar. Með Ljósleiðara Mílu fá heimilin 1 Gb/s internethraða. 

Ný hverfi

Fyrir nokkrum árum hætti Míla að leggja koparlínur í ný hverfi og hefur síðan þá lagt ljósleiðaralagnir í nýjum hverfum víða um land og þar á meðal í Reykjanesbæ.  

Eldri hverfi

Þá verður hafist handa við að leggja ljósleiðara til heimila í eldri hverfum í bænum þar sem ekki eru til staðar rör og gefur Míla sér 3 ár til að ljúka því verkefni. Á þeim tíma verða öll heimili í Reykjanesbæ komin með ljósleiðara Mílu og geta nýtt sér 1 Gb/s internethraðann sem honum fylgir.

Fjarskiptakerfi Mílu eru aðgengileg öllum fjarskiptafélögum sem selja þjónustu til einstaklinga, en Míla er heildsölufyrirtæki á fjarskiptamarkaði og selur þjónustu sína eingöngu til fyrirtækja með fjarskiptaleyfi. Einstaklingar tengjast kerfum Mílu í gegnum sitt fjarskiptafyrirtæki.