Ljósleiðari í Grímsnes- og Grafningshreppi

11.9.2018

Íbúafundur um ljósleiðaratengingar í Grímsnes- og Grafningshreppi - góð mæting og áhuginn mikill hjá íbúum. 

Mánudaginn 10. september var haldinn opinn fundur í félagsheimilinu Borg í tengslum við ljósleiðaratengingar fyrir íbúa í Grímsnes- og Grafningshreppi, en síðustu mánuði hefur Míla unnið að lagningu ljósleiðara til heimila og fyrirtækja í sveitarfélaginu. Þar höfðu fjarskiptafyrirtæki sem selja þjónustu um ljósleiðara tækifæri til að koma og kynna fyrir íbúum á svæðinu þá þjónustu sem er í boði til heimila.  Míla var á staðnum og kynnti framkvæmdir síðustu mánaða fyrir íbúum og hvernig fyrirtækið hyggst standa að áframhaldandi lagningu ljósleiðara í sveitarfélaginu. Fjölmennt var á fundinum og augljóst að mikill áhugi er á þessum málum hjá íbúum í sveitarfélaginu.

Síðasta haust skrifuðu Sveitarfélagið Grímsnes- og Grafningshreppur og Míla undir samning um lagningu ljósleiðara til heimila í sveitarfélaginu. Grímsnes- og Grafningshreppur  hlaut styrk frá ríkinu í gegnum verkefnið Ísland ljóstengt, til að leggja ljósleiðara til lögbýla og fyrirtækja í sveitarfélaginu. Verkið var boðið út á síðasta ári þar sem tilboði Mílu var tekið. Samkvæmt samningi sér Míla um alla hönnun kerfisins og hefur ábyrgð á og eftirlit með framkvæmdum á svæðinu. Um er að ræða alls um 137 lögbýli í sveitarfélaginu, en frístundabyggð er ekki hluti af þessu verkefni, þar sem styrkur ríkisins nær aðeins til lögbýla.

Þrír áfangar

Verkefninu var skipt í þrjá áfanga. Í fyrsta áfanga voru 57 tengingar og var lokið við að tengja þær í byrjun ágúst. Geta íbúar á því svæði sem tilheyrir áfanga eitt nú pantað sér þjónustu um nýja ljósleiðarann hjá fjarskiptafélögunum. Strax í kjölfarið var hafist handa við áfanga tvö. Þar er um að ræða 60 tengingar og verður lokið við að tengja þær fyrir lok þessa árs.  Í þriðja og síðasta áfanganum eru 20 tengingar og verður lokið við að tengja þær á næsta ári. Miðað er við að verkefninu verði í heildina lokið haustið 2019. Nánari upplýsingar um hvaða svæði tilheyrir hverjum áfanga má sjá hér: https://www.gogg.is/lagning-ljosleidara-i-grimsnes-og-grafningshrepp/

Sumarhús

Frístundabyggð er mjög mikil í sveitarfélaginu og í Grímsnesinu einu saman eru um 3000 sumarhús. Samhliða lagningu ljósleiðara til lögbýla mun Míla leggja ljósleiðara að frístundabyggðum. Þar verður ljósleiðari lagður í tengibrunna, en tengingar þaðan og að hverjum bústað eru í höndum sumarhúsaeigenda sjálfra.

Til að tengjast ljósleiðaranum þurfa íbúar að hafa samband við sitt fjarskiptafyrirtæki og panta hjá þeim þjónustu um ljósleiðarann.