22. september 2021

Kapalvæðing nýr þjónustuaðili á kerfum Mílu

Míla og Kapalvæðing Reykjanesbæ hafa ákveðið að hefja samstarf um fjarskiptaþjónustu í Reykjanesbæ.

Míla og Kapalvæðing Reykjanesbæ hafa ákveðið að hefja samstarf um fjarskiptaþjónustu í Reykjanesbæ. Kapalvæðing er rótgróið fyrirtæki í Reykjanesbæ og hefur einstaka stöðu á svæðinu sem slíkt. Það er því mikil búbót fyrir Mílu að fá Kapalvæðingu inn á kerfi sitt.

Fjarskiptakerfi Mílu er opið kerfi og því opið öllum fjarskiptafyrirtækjum á markaði til að bjóða sína þjónustu. Fjarskiptakerfi Mílu nær til allra heimila í Reykjanesbæ, hvort sem er um ljósleiðara eða Ljósnet. Með því að nýta kerfi Mílu hefur Kapalvæðing því möguleika á að þjóna mun stærra svæði og getur boðið enn fjölbreyttari þjónustu.

Síðustu misseri hefur Míla unnið að lagningu ljósleiðara til heimila í Reykjanesbæ. Eins og staðan er núna þá nær ljósleiðari Mílu til um 6.500 heimila og fyrirtækja í Reykjanesbæ og fjölgar þeim stöðugt. Míla stefnir á að ljúka við að tengja öll heimili í Reykjanesbæ við ljósleiðarakerfi sitt fyrir árslok 2022. Þar með mun Kapalvæðing geta veitt öllum heimilum í bænum hágæðatengingu með allt að 1 Gb/s internethraða.
Þetta vefsvæði byggir á Eplica