Fróðleikur um Ljósnet

27.6.2017

Nokkur misskilningur hefur verið í gangi síðustu daga varðandi Ljósnet, ljósleiðara og ADSL.  Þar sem Míla á og rekur fjarskiptakerfið sem kallað er Ljósnet þá langar okkur að leiðrétta nokkur atriði.   

ADSL er eldri gerð tenginga sem byrjað var að nota árið 1999. Þær tengingar hafa verið á hraðri útleið á síðustu árum, sérstaklega með tilkomu Ljósnetsins.

Ljósnet er ekki ADSL eins og sagt var í Bítinu á Bylgjunni á mánudaginn, en þar var rætt við Ólaf Kristjánsson, eða Óla tölvu um muninn á Ljósneti og Ljósleiðara. Ljósnet er tenging sem byggir á svokallaðri VDSL-tækni sem eru algengustu háhraðanetstengingar í Evrópu. Ljósleiðari er tengdur alla leið í götuskáp í nágrenni við heimilin (yfirleitt 200 - 400 metra frá heimili) og þar er settur upp búnaður sem tryggir hraða um koparendann, sem notaður er síðasta spölinn inn til notanda.

Hraðinn á Ljósneti er 100 Mb/s á höfuðborgarsvæðinu og víðar en ekki 30 - 40 Mb/s eins og  Óli tölva sagði í viðtalinu.   Hraðinn sem fæst yfir Ljósnetið uppfyllir þarfir og kröfur langflestra heimila hvað varðar bandvíddarþörf og nægir auðveldlega fyrir t.d. 2 - 3 háskerpu sjónvörp, til að vafra á netinu, spila tölvuleiki yfir netið, hlusta á tónlist og horfa á sjónvarpsveitur, allt á sama tíma, án truflana.

Þá talaði Óli um að mestur munur lægi í myndgæðum, að myndgæði sjónvarps væru betri yfir ljósleiðara.  Það er misskilningur.  Myndgæði sjónvarpsþjónustu á ljósleiðara og Ljósneti eru nákvæmlega þau sömu. Ef truflanir eru á mynd þá er það í flestum tilfellum vegna innanhússtenginga.

Míla er núna að leggja ljósleiðara alla leið til heimila á höfuðborgarsvæðinu og er áætlað að því verði lokið fyrir lok árs 2019. Er það verkefni til framtíðar, svo fjarskiptakerfi Mílu verði í stakk búið til að geta tryggt það að notendur hafi þann hraða sem þeir þurfa og geta nýtt á hverjum tíma.