Óvissustig hjá Mílu

Míla er á óvissustigi vegna Landriss á Reykjanesi og vegna Covid-19 veirunnar. 

 


11. desember 2019

Míla vinnur að því að tryggja grunnfjarskipti á óveðurssvæðum

Mikilvægasta verkefni Mílu síðasta sólarhringinn hefur falist í að halda grunnfjarskiptum gangandi á óveðurssvæðum sem alfarið hafa verið án veiturafmagns.

Það er mikil áskorun að viðhalda fjarskiptum í slíku óveðri eins og hefur gengið yfir landið síðasta sólarhringinn. Fjarskipti byggja alfarið á rafmagni og rafmagnsútföll í óveðrinu voru bæði stærri og lengri en gert var ráð fyrir. Öll rafmagnstengd þjónusta hefur orðið fyrir áhrifum og fjarskipti eru þar engin undantekning.

Verkefnin síðasta sólarhringinn

Mikilvægasta verkefni Mílu síðasta sólarhringinn hefur því falist í að tryggja rafmagn svo halda megi grunnfjarskiptum gangandi á óveðurssvæðum sem alfarið hafa verið án veiturafmagns. Lögð hefur verið áhersla á að halda megin leiðum stofnfjarskipta gangandi. Það felur í sér stofntengingar til þéttbýlisstaða ásamt útlandasamböndum sem fara um óveðurssvæðin og eru án rafmagns. Þetta felur einnig í sér flutning á Tetraþjónustu fyrir viðbragðsaðila til að tryggja öryggisfjarskipti við þessar aðstæður og undirlag fyrir talsímasambandi gegnum talsímakerfið og farsíma. Í sumum tilfellum hefur þurft að forgangsraða vegna rafmagnsleysis og tryggja að fjarskipti sem ganga séu í samræmi við það rafmagn sem er hægt er að útvega á hverjum stað. Neyðarstjórn Mílu var kölluð saman í gærmorgun og aðgerðum Mílu er stýrt úr stjórnstöð Mílu á Stórhöfða. Starfsmenn Mílu og samstarfsaðilar á óveðurssvæðum úti á landi hafa því staðið í ströngu við að tryggja grunnfjarskipti síðasta sólarhringinn. Einnig hefur Míla átt mjög gott samstarf við Neyðarlínuna, önnur fjarskiptafyrirtæki, veitufyrirtæki og viðbragðsaðila til að bregðast við þessum erfiðu aðstæðum.

Stjórnstöð Mílu Stórhöfða
Stjórnstöð Mílu Stórhöfða

Fjarskiptastaðir á Norðurlandi víða á varaafli 

Víðtækt og langvarandi rafmagnsleysi á Norðanverðu landinu allt frá Ströndum til Þórshafnar hefur haft nokkur áhrif á fjarskipti á svæðinu. Í veðri sem þessu gegna fjarskipti mikilvægu hlutverki fyrir alla viðbragðsaðila og síðastliðinn sólarhring hefur Míla unnið með þeim aðilum ásamt veitufyrirtækjum að tryggja fjarskiptaöryggi sem best. Rofþol fjarskiptastaða gagnvart rafmagni er mismunandi og langvarandi rafmagnsleysi hefur mikil áhrif á fjarskipti. Áhersla Mílu hefur verið á að halda stofnleiðum  gangandi en minni fjarskiptastaðir til dala og fjalla hafa í sumum tilfellum þurft að bíða. Síðustu nótt og í daghefur Míla með aðstoð björgunarsveita verið að flytja til díselrafstöðvar til að verja mikilvæga fjarskiptastaði þar sem varafl á rafhlöðum hefur verið að klárast. Svona aðgerðir eru erfiðar og taka mikinn tíma vegna veðurs og ófærðar. Nær öllum vegum á Norðurlandi hefur verið lokað fyrir allri umferð og því hefur þurft aðstoð björgunarsveita og heimamanna við að tryggja rafmagn vegna öryggis fjarskipta.

Á þeim svæðum þar rafmagnsleysi hefur verið viðvarandi í lengri tíma er samband við internet takmarkað og sumstaðar ekki í boði. Víða er einnig búið að minnka þjónustu farsíma í samráði við fjarskiptafélögin. Þetta er gert til að spara rafmagn og 4G kerfi því tekin niður tímabundið þar sem viðvarandi rafmagnsleysi er og þjónusta háð varaafli á rafgeymum. Farsímasendar utan þéttbýlis eru á sumum stöðum án rafmagns og varaafl búið.

Austurland

Í dag fór rafmagn einnig af stórum hluta á Austurlandi og þar reyndi einnig á rofþol fjarskipta gagnvart rafmagni. Voru truflanir á þjónustu á ákveðnum svæðum, en nú er rafmagn komið á aftur víðast hvar á Austurlandi.

Hvað er framundan?

Gert er ráð fyrir að víða verði áfram takmarkaður aðgangur að veiturafmagni á Norðurlandi og Míla vinnur að því að flytja fleiri rafstöðvar á svæðið til að tryggja fjarskipti á mikilvægum stöðum þar sem langvarandi rafmagnsleysi er, eða því spáð. Einnig er unnið að því að flytja eldsneyti til að fylla á rafstöðvar sem þegar eru í gangi til að halda uppi þjónustu.
Þetta vefsvæði byggir á Eplica