28. nóvember 2019

Almennt um ljósleiðaratengingar

til heimila á landsvísu

Míla leggur ljósleiðara til heimila í þéttbýli víða um land. Í lok þessa árs verða um 80 þúsund heimila í landinu komin með tengingu við ljósleiðara Mílu.

Míla á og rekur Ljósnet í öllum þéttbýlisstöðum landsins, sem uppfyllir viðmið um næstu kynslóðar háhraðanetstengingar. Ljósnetið er þannig uppbyggt að lagður er ljósleiðari í símstöð eða tengiskáp í nágrenni við öll heimili. Í tengiskápunum er sérstakur búnaður sem býr til mikinn hraða yfir síðasta legginn inn til notenda, sem er á kopar.

Ljósnetstengingar eru algengustu tengingar í Evrópu og er staða háhraðanetstenginga hér á Íslandi með því besta sem gerist í heiminum.

Uppbygging næstu kynslóðar háhraðanetstenginga

Míla hefur frá árinu 2006 lagt ljósleiðara í ný hverfi og nýbyggingar. Árið 2015 hóf Míla formlega verkefni við uppbyggingu á næstu kynslóð háhraðanetstenginga sem felur í sér að lagður er ljósleiðari síðasta spölinn inn til endanotenda í stað kopars.

Í þessu verkefni nýtir Míla þá innviði sem félagið á um allt land, bæði ljósleiðara sem komnir eru í rör og umfangsmikið rörakerfi sem félagið hefur lagt í gegnum árin.

Í upphafi verkefnis var áherslan á höfuðborgarsvæðið en árið 2018 færðist áherslan einnig til annarra þéttbýlisstaða á landinu. Verkefnið er mjög umfangsmikið en hefur gengið vonum framar.

Í árslok 2019 gerir Míla ráð fyrir að um 80 þúsund heimili verði komin með aðgang að ljósleiðara Mílu og að rúmlega 10 þúsund heimili til viðbótar hafi aðgang að ljósleiðaraþjónustu frá Mílu yfir ljósleiðara í eigu annarra. Þá mun ljósleiðaraþjónusta Mílu ná til um 70% heimila á landinu og yfir 75% á höfuðborgarsvæðinu. Árið 2020 er gert ráð fyrir að um 12-14 þúsund ný heimili muni fá aðgang að ljósleiðara Mílu og mun það skiptast nokkuð jafnt milli höfuðborgarsvæðisins og annarra þéttbýlisstaða.

Þrátt fyrir þennan mikla fjölda sem hefur aðgang að ljósleiðara Mílu eru viðskiptavinir sem hafa tekið ljósleiðarann í notkun aðeins rúmlega 30 þúsund. Víðast uppfyllir öflugt Ljósnet allar þarfir heimila og notendum liggur lítið á, auk þess sem þarfir heimila eru misjafnar.

Ljósleiðaraverkefni Mílu er komið vel á veg en vegna umfangs er ljóst að það tekur mörg ár að ljúka því. Á flestum þéttbýlisstöðum er það komið af stað þó víða fari það hægt en verkefnið kallar bæði á mannauð með þekkingu og fjármagn sem eru auðlindir sem ekki eru til í ótakmörkuðu magni.

Forgangsröðun verkefna

Míla er einkarekið fyrirtæki sem starfar á samkeppnismarkaði og uppbygging ljósleiðara þarf að vera á markaðslegum forsendum. Forgangsröðun verkefna byggir á að vinna ódýrustu verkefnin fyrst því þannig fá flestir notendur aðgang að nýrri þjónustu á hverja fjárfesta krónu.

Almennt er áhersla Mílu við lagningu ljósleiðara til heimila eftirfarandi;

  • Öll ný hús eru tengd með ljósleiðara
  • Þátttaka í endurnýjunarverkefnum sveitarfélaga og veitufyrirtækja og lagning ljósleiðara með öðrum framkvæmdum
  • Bjóða ljósleiðaratengingar þar sem innviðir (rör og strengir) fyrir slíkt eru til staðar (lokahönd lögð á verkið við pöntun notanda)
  • Finna og meta svæði í þéttbýli víða um land þar sem miklir innviðir eru til staðar og hægt er að ljósleiðaravæða á fljótlegan og hagkvæman hátt

Ljósleiðari í dreifbýli

Opinber stuðningur gegnum verkefnið Ísland ljóstengt hefur lagt grunninn að lagningu ljósleiðara í dreifbýli um allt land. Hafa þarf í huga að sveitir landsins hafa fram til þessa ekki haft aðgang að háhraðanetstengingu í gegnum fastlínu (ljósleiðara eða kopar). Uppbygging þessi er ekki gerð á markaðslegum forsendum þar sem íslenska ríkið er að leggja fé í að niðurgreiða verkefnið. Þess ber að geta að Míla í samstarfi við sveitarfélög hefur komið mjög víða að þessum verkefnum með einum eða öðrum hætti.

Þróun háhraðanetstenginga

Góð háhraðanetstenging er þegar orðin nauðsynlegur partur af nútímanum. Ný lög frá 2018 um aðgang að háhraðanetstengingu taka tillit til þeirra þróunar sem hefur orðið og gert er ráð fyrir í framtíðinni.

Í hinum nýju lögum er gert ráð fyrir að aðgangur að háhraðanetstengingu sé tæknióháður og að gæðin miðist við nothæft internet. Þannig eru lögin að gera ráð fyrir framþróun m.a. í þráðlausri tækni sem getur uppfyllt þarfir á komandi árum. Með öflugar 4G tengingar í dag og framtíð með 5G sem mun bjóða upp á mun meiri hraða með þráðlausum lausnum er ljóst að fjölþætt aðgengi að háhraðanetstengingum verður í boði. Einnig má nefna að víða í heiminum er komin í notkun lausn sem samtvinnar tengingu með fastlínu (Ljósnet) og farnet (4G). Með búnaði sem samnýtir tvö net sem til staðar eru (t.d. Ljósnet + 4G) er hægt að búa til öfluga og sveigjanlega tengingu. Slík lausn getur hentað vel þar sem uppbygging ljósleiðara tekur tíma og notendur með Ljósnet vilja öflugri tengingu.

Míla mun halda áfram lagningu ljósleiðara til heimila í þéttbýli á Íslandi. Verkefnið er umfangsmikið og mun taka tíma, en víðast er til staðar öflug Ljósnetstenging auk möguleika sem farnet bjóða. Notendur á Íslandi verða því áfram í fremstu röð þegar kemur að háhraðanetstengingum.