Áhrif hraunrennslis á ljósleiðara í jörðu
Míla greip tækifærið sem nú gafst til að gera prófanir á því hver áhrif hraunrennslis eru á ljósleiðara í jörðu og því hvernig hann þolir það álag sem af því hlýst.
Ljósleiðari Mílu er einn þeirra innviða sem eru í hættu ef hraun nær að renna úr Nafnlausa dalnum niður í Nátthaga og þaðan yfir Suðurstrandarveg. Ljósleiðarinn sem liggur sunnan Nátthaga er hluti af hringtengingu Reykjaness og er því mikilvæg stofnleið fjarskipta.
Það eru mismunandi skoðanir á því hver áhrifin geta orðið þegar hraun rennur yfir niðurgrafinn ljósleiðarastreng og núna er einstakt tækifæri til að framkvæma tilraun til að varpa ljósi á það. Það var því ákveðið að gera prófanir á því og fékk Míla leyfi til að leggja ljósleiðarastreng af sömu gerð og strengurinn sem liggur fyrir sunnan Nátthaga í hraunjaðarinn fyrir framan einn varnargarðinn, þar sem hraun mun flæða yfir hann. Strengurinn er lagður á sama dýpi og Míla leggur almennt sína fjarskiptastrengi á og það sama á við um strenginn sem liggur með Suðurstrandarvegi.
Búið er að koma ljósleiðaranum fyrir í jörðu og í framhaldinu verður komið upp búnaði til mælinga sem gerir það mögulegt að fylgjast með ástandi strengsins undir hrauninu í rauntíma. Þannig getum við áttað okkur betur á því hverju má búast við ef svo fer að hraunið nær að flæða yfir fjarskiptaleiðina okkar sem liggur með Suðurstrandarvegi.
Ljósleiðarinn var lagður fyrr í vikunni og á miðvikudagskvöld, þann19. maí rann hraunið yfir svæðið sem strengurinn var lagður á 70 – 80 cm dýpi. Daginn eftir var strengurinn mældur á staðnum og var þá í lagi. Seinna þann dag var sett upp mælitæki á Langahrygg sem gerir okkur kleift að fylgjast með ástandi strengsins yfir netið.
Nú þegar þetta er skrifað, þann 21. maí, hefur strengurinn legið undir hrauni í meira 36 klst og enn sjást engin áhrif af hrauninu á strenginn.
Það verður því áhugavert að fylgjast með hvort hraunið og hitinn frá því muni hafa áhrif á strenginn og hversu lengi hann mun þá þola álagið.
Skurðurinn tekinn fyrir strengnum, alls 150 metra vegalengd.
Hraunið hefur náð að varnargarðinum og er kominn yfir ljósleiðarastrenginn.