25. mars 2020

Áhersla Mílu að tryggja fjarskipti

Hlutverk fjarskipta sjaldan verið jafn stórt og nú í þeim aðstæðum sem eru í þjóðfélaginu vegna Covid-19. 

Vegna Covid-19 eru aðstæður í þjóðfélaginu án hliðstæðu. Hlutverk fjarskipta í samfélaginu hefur sjaldan eða aldrei verið jafn stórt og núna, þegar flest fyrirtæki hafa sent starfsfólk sitt heim og þeir sem geta sinna vinnu sinni að heiman. Virkni hugbúnaðar, samskiptatóla og fjarfundalausna byggja á öruggu og góðu fjarskiptasambandi. Heima hjá okkur treystum við á fjarskipti til öflunar nauðsynlegra upplýsinga á óvissu tímum og til afþreyingar. Fjarskiptin gegna því enn mikilvægra og fjölþættara hlutverki en áður.

Undanfarnar vikur hefur Míla jafnt og þétt aukið aðgerðir hjá sér með það að markmiði að tryggja öryggi rekstrar og um leið vernda heilsu starfsfólks og viðskiptavina. Áhersla Mílu er að reka fjarskiptakerfi sín án truflana. Tryggja þarf fjarskipti til almennings og fyrirtækja og líka landsmikilvægra innviða eins og útlandatenginga og öryggisfjarskipta.

Í ljósi þessara markmiða og þeirra aðstæðna sem nú eru uppi stefnir í að takmarka þurfi að hluta starfsemi og þjónustu Mílu tímabundið, meðan ástand varir. Míla mun leggja áherslu á að tryggja nauðsynlegt rekstraröryggi núverandi innviða og sinna nauðsynlegri þjónustu til að tryggja uppitíma. Takmarkanir munu snúa að breytingum og viðbótum sem geta dregið úr eða haft áhrif á öryggi.
Þetta vefsvæði byggir á Eplica